„Það er hörkuléleg skráning að austan": Stelpur óskast

gettubetur stelpurStúlkur af landsbyggðinni eiga kost á ferðastyrk til þess að komast í æfingabúðir á vegum „Gettu betur stelpna" sem haldnar verða í Reykjavík um næstu helgi.

Er þetta annað árið í röð sem hópurinn stendur fyrir æfingabúðunum sem ætlaðar eru stelpum í 9. og 10. bekk grunnskóla sem og stelpum í framhaldsskóla.

Gettu betur hópurinn samanstendur af konum sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið þátt í spurningakeppninni Gettu betur og vilja leggja sitt af mörkum til þess að kynna keppnina fyrir stelpum og leitast þannig við að auka hlut þeirra innan keppninnar.


Gaf aukna trú á eigin getu

Hrafnkatla Eiríksdóttir, frá Skjödólfsstöðum í Jökuldal, er ein skipuleggjenda æfingabúðanna. Hún tók tók tvisvar sinnum þátt í Gettu betur fyrir Menntaskólann á Egilsstöðum. Hún segist hafa verið efins um þátttöku sína til þess að byrja, sem hafi svo gefið sér aukna trú á eigin getu.

„Þátttakan í Gettu betur sýndi mér að ég væri nú kannski ekki eins vitlaus og ég hélt að ég væri. Þjálfarinn þurfti þó að leggja mun meiri vinnu í mig heldur en í strákana því ég sagði aldrei neitt á æfingum til að byrja með, var svo hrædd um að segja einhverja vitleysu og vera dæmd fyrir það. Þegar ég kynntist Gettu betur stelpunum komst ég að því að flestar höfðum við sömu sögu að segja, sem er stórmerkilegt, þar sem um einvala lið gáfnakvenna er að ræða sem margar hverjar eru orðnar áberandi í samfélaginu."


Ekki dömulegt að hafa skoðanir

Aðspurð að því hvað valdi því að unglingsstelpur séu hræddari við að taka þátt í slíkum keppnum og efist frekar um eigin getu en strákar segir Hrafnkatla:

„Þetta kemur til umræðu á hverjum einasta fundi hjá hópnum og það er einróma álit stúlknanna að engin ein ástæða skýri þetta, en samfélagið spilar engu að síður stærsta hlutverkið. Strákar eru aldir upp við að ota sér frekar fram en stelpur eiga að vera samviskusaman og ekki sýna sig of mikið – það er ekki „dömulegt" að hafa sterkar skoðanir eða reyna að koma sér á framfæri. Það er hins vegar talinn mjög sterkur og ákveðinn drengur sem gerir slíkt hið sama. Þetta er þó vonandi að breytast.

Einhverra hluta vegna eru stúlkur á unglingsaldri mun smeikari við álit annarra og hafa minna sjálfstraust en strákar á sama aldri. Maður myndi aldrei heyra strák sem færi í Gettu betur forpróf afsaka sig ef hann vissi ekki eitthvað, en því miður er það raunin með stelpur, þó svo þær svari oft á tíðum mun fleiru rétt en strákarnir.

En við erum að vona að með því að leyfa stelpunum að prófa allt það sem Gettu betur býður upp á; þ.e. forpróf, semja spurningar, taka þátt í keppni og fleira að þá verði þær ófeimnari við að prófa að skrá sig og taka þátt í forprófum síns skóla því þær hafa séð að þetta er skemmtilegt og viðráðanlegt."


Kynjakvóti vonandi ekki varanleg nauðsyn

Líkt og í fyrra verður svokallaður kynjakvóti í Gettu betur í ár. „Kynjakvótinn reyndist vel í fyrra og í úrslitakeppninni voru þjrár stelpur og þrír strákar, í fyrsta skipti í sögu Gettu betur. Kristín sem var í sigurliði MR er aðeins önnur stelpan til að vinna hljóðnemann frá uppafi sem er hálf sorgleg staðreynd í 30 ára sögu þáttarins.

Auðvitað vonum við að kynjakvótinn þurfi ekki að koma til um ókomna tíð og að þessi tvö ár muni breyta einhverju og veiti ungum stelpum sterkar fyrirmyndir."


Stelpur að austan óskast!

Hvert pláss í æfingabúðunum var skipað í fyrra, en aðeins 10% stúlknanna komu að austan og voru þær allar af Héraði. Skráning frá Austurlandi er afar dræm í ár og aðeins er ein stúlka skráð.

„Orsök þess að aðeins voru stelpur af Héraði í fyrra getur verið sú að þar héldum við kynningarfund. Það er hörkuléleg skráning að austan í ár, okkur vantar þær stelpur alveg!

Það er erfitt að segja til hvers vegna svo er – kannski hefur fólk ekki vitað af búðunum hingað til, eða stelpurnar þora ekki að taka af skarið og skrá sig ef vinkonurnar ætla ekki. Svo er kannski bara enginn áhugi á spurningakeppnum hjá stelpum fyrir austan, sem ég þó efa stórlega og Menntaskólinn á má vera stoltur af því að hafa oft haft stelpur í sínum röðum sem hefur gefið yngri stúlkum góðar fyrirmyndir til að horfa upp til.

Við viljum í það minnsta hvetja stelpur að austan til að skrá sig og koma og hafa það skemmtilegt með okkur um helgina."

Allar nánari upplýsingar er að finna hér.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar