Agnieszką hafnaði Reyðfirðingnum Ireneusz
Ireneusz, 47 ára íbúi á Reyðarfirði, er úr leik í pólskum stefnumótaþætti þar sem einhleypt fólk úr sveitum leitar að maka. Hann náði hins vegar að kynna Ísland rækilega á meðan þátttöku hans stóð.Eins og Austurfrétt greindi frá í október þá var Ireneusz einn þriggja sem kepptu um hylli hinnar fertugu hestakonu Agnieszku. Sambærilegir þættir eru framleiddir víða um heim en kallast í Póllandi „Rolnik szuka żony.“ Um var að ræða tíundu þáttaröðina þar.
Samkvæmt umfjöllum pólskra vefmiðla virðist það helst hafa ergt Agnieszku að henni þætti Ireneusz ekki koma hreint fram. Til að mynda hafi komið fram að hann hafi fyrir nokkrum árum tekið þátt í öðrum stefnumótaþætti. Hún hafi þá talið að hann geymdi fleiri leyndarmál og hefði tilhneigingu til að láta sig hverfa þegar á bjátaði þótt hann væri indælis maður. Eins hafi neistann einfaldlega vantað.
Pólsku miðlarnir slá því hins vegar upp að meðal þeirra leyndarmála sem Ireneusz hafi búið yfir sé einstök náttúrufegurð Íslands. Í viðtali í upphafi þáttaraðarinnar sagðist hann kunna ágætlega við sig hérlendis þar sem hann hefur búið í fjögur ár.
Miðlarnir hafa birt útdrætti af myndskeiðum sem hann hefur sett á YouTube og TikTok sem sýna hann á ferð í íslenskri náttúru. Í úrvalinu má meðal annars sjá myndskeið úr Stuðlagili, við sjávarhverinn Söxu og stórskemmtilega klippu af honum spilandi golf á rúlluskautum á gamla veginum upp í Oddsskarð Eskifjarðarmegin.
Mynd: TVP/Rolnik szuka zony
@prometheush Imagination is Magical #dc #fyp #new #lifestyle ♬ original sound - JJ