![](/images/stories/news/2017/Flaggfabrikan.jpg)
Áhersla lögð á þátttöku gesta
Neistaflug hófst í gær með því að bæjarbúar komu saman og hönnuðu og prentuðu sína eigin fána til þess að skreyta bæinn um helgina. Guðrún Smáradóttir, framkvæmdastjóri Neistaflugs, segir hátíðina með nýju sniði í ár.
„Helstu breytingar á Neistaflugi í ár eru þær að hátíðasvæðið flyst úr miðbænum upp á fótboltavöll, auk þess sem Gunni og Felix hafa látið af störfum eftir að hafa verið með okkur frá árinu 2000 og þar til í fyrra,“ segir Guðrún.
Dagskrá helgarinnar er glæsileg. „Við leggjum mikla áherslu á þátttöku gesta í ár þó svo það verði fjöldi glæsilegra viðburða til þess að njóta á sviði, segir Guðrún en í kvöld verða stórtónleikar með hljómsveitinni Dimmu í Egilsbúð og þeir Rúnar Freyr og Halli Melló helda utan um dagskrána annað kvöld þegar hátíðin verður formlega sett á íþróttasvæðinu.
Réttur tímapunktur fyrir breytingar
Guðrún segir breytingarnar leggjast vel í bæjarbúa og gesti og býst hún við miklu fjöri í bænum um helgina. „Það eru allir mjög jákvæðir og kannski var þetta akkúrat rétti tímapunkurinn til þess að gera breytingar. Gunni og Felix hafa vissulega verið límið gegnum öll þessi ár og við ákváðum strax að vera ekki að reyna að finna neina til þess að fara í þeirra spor, heldur rekur bara hver viðburðurinn annan um helgina. Það verður meira tónleikahald en verið hefur og til dæmis verða stórir tónleikar á hátíðasvæðinu á sunnudagskvöldið þar sem Todmobil, Stuðlabandið og Stelpurokk spila, en kvöldið endar að sjálfsögðu með flugeldasýningu og dansleik.“
Eitthvað fyrir alla
Guðrún segir að vel hafi verið hugsað um að unglingarnir fái eitthvað við sitt hæfi. „Það var sundlaugapartý í gær, svo er frispígolfmót, Diskótek með Dj Tadasi, Áttan spilar á setningunni, það verður fjörupartý með Magna Ásgeirs og Pétri Erni, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og njóta.“
Dagskrá Neistaflugs hefur í raun verið lengd um tvo daga. „Við hófum leikinn í gær þar sem fólk kom saman og bjó til sína eigin fána til þess að skreyta bæinn, en það var Art Attack-hópurinn sem stóð fyrir henni. Einnig var Pubquiz í Egilsbúð og sundlaugarpartý í Stefánslaug. Við lokum svo hátíðinni ekki fyrr en á mánudagskvöld þegar sami hópur heldur sykurpúðaeftirpartý í garðinum við Þórsmörk, en það er frekar krúttlegur endir á helginni,“ segir Guðrún.
Dagskrá Neistaflugs í heild sinni má sjá hér.