Aron Daði Einarsson er Austfirðingur ársins

Aron Daði Einarsson, 14 ára Egilsstaðabúi, varð hlutskarpastur meðal lesenda Austurfréttar í vali þeirra á Austfirðingi ársins 2024. Aron Daði sýndi hárrétt viðbrögð þegar vinur hann grófst undir snjóflóði við skíðasvæðið í Stafdal í fyrra.

Seinni part laugardagsins 2. mars í fyrra var Aron Daði ásamt vini sínum að undirbúa sig til að fara af stað í síðustu ferð dagsins. Þeir hafa mikla ánægju af því að skíða utan brauta og voru í gili þar sem þeir höfðu rennt sér oft niður, bæði þennan dag og aðra. Þeir sáu hengju í gilinu og ætluðu að hoppa fram úr henni.

„Hann fer á undan en dettur og missir skíðin. Ég er að undirbúa mig til að fara á eftir þegar hengjan dettur yfir hann og verður að snjóflóði. Ég fer niður í kjölfar flóðsins, en ekki undir það. Ég fer úr skíðunum og athuga hvort ég sjái hann en ég geri það ekki. Síðan byrja ég aðeins að moka en byrja að reyna að hringja í Neyðarlínuna þegar ég fatta hvað þetta er alvarlegt,“ segir Aron um atvikið sjálft.

Byrjaði strax að moka


Sambandið við Neyðarlínuna var slitrótt og Aron Daði hélt áfram að grafa á meðan hann kallaði eftir hjálp. „Ég fór úr vettlingunum til að eiga auðveldara með að moka. Síðan fór ég að kalla á hjálp.“ Hann segist ekki hafa vitað nákvæmlega hvar vinur hans var í flóðinu, en hann hafi á meðan það féll reynt að fylgja hreyfingum þess.

Það vildi til happs að tveir menn á snjóbrettum voru nærri, heyrðu í Aroni, komu strax og sáu hvernig var. Annar fór áfram niður í skíðaskálann að sækja hjálp á meðan hinn fór að moka með Aroni. Fljótt kom því fleira fólk á staðinn til aðstoðar og eftir um 20 mínútur var búið að ná vini Arons upp úr flóðinu, meðvitundarlausum en lifandi og lítið meiddum. Rétt fyrstu viðbrögð eru talin hafa skipt miklu máli við lífsbjörgina.

Geggjaður heiður


Aron Daði hefur verið mjög virkur á skíðum undanfarin fimm ár og segist aldrei hafa lent í neinu svipuðu. Hann segist ekki hafa hugsað mikið um atvikið síðan, að öðru leyti en því að hann sé þakklátur fyrir að allt fór vel.

Öryggismál á austfirsku skíðasvæðunum tveimur voru tekin til endurskoðunar í kjölfar atviksins. Aron Daði kveðst vera ánægður með það, þótt honum og vinum hans þyki miður að búið sé að loka gilinu sem þeir renndu sér svo oft eftir.

Sem Austfirðingur ársins fær Aron Daði viðurkenningu frá Austurfrétt/Austurglugganum og gjafabréf frá Gistihúsinu á Egilsstöðum. Tilnefningin kom honum á óvart. „Ég vissi varla hvað þetta var, en mér finnst þetta geggjaður heiður,“ segir Aron Daði sem fékk langflest atkvæði í kjörinu að þessu sinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar