Atómstöðin spilar á Austurlandi í fyrsta sinn í níu ár

Hljómsveitin Atómstöðin hefur sent frá sér nýtt lag eftir níu ára bið og fylgir því eftir með að koma austur til að spila á Eistnaflugi um helgina. Það er viðeigandi þar sem Austfirðingar mynda kjarnanna í bandinu.


„Við erum bara mjög spenntir fyrir því að koma loks austur að spila aftur. Það eru held ég 9 ár síðan við spiluðum þar síðast og gott ef það var ekki á Vegareiðinni (Road Rage Festival) á Egilsstöðum sumarið 2008 þegar við vorum að fylgja eftir síðustu plötu,“ segir trommuleikarinn Örn Ingi Ásgeirsson sem er alinn upp á Reyðarfirði.

Aðrir Austfirðingar í bandinu eru gítarleikararnir Óttar Brjánn Eyþórsson frá Egilsstöðum og Óli Rúnar Jónsson sem kennir sig ýmist við Fellabæ eða Borgarfjörð. Að auki er móðir bassaleikarans Hróbjarts Róbertssonar frá Djúpavogi.

Atómstöðin sendi í vikunni frá sér lagið „Ravens of Speed“ sem er fyrsta lagið af væntanlegri plötu sem bera mun heitið „Bash“. Scott Hackwith, fyrrum upptökustjóri pönksveitarinnar Ramones stýrði upptökum.

Atómstöðin er fyrsta hljómsveit á svið á Eistnaflugi á morgun, klukkan tvö og verður það í fyrsta sinn sem sveitin kemur fram á hátíðinni. „Eistnaflug hefur heldur betur vaxið og dafnað þau 9 ár sem bandið hefur legið í dvala og því frábært að ná að spila þar í ár.“

Auk þess lokar sveitin sérstakri Austfirðingadagskrá í Beituskúrnum á laugardagskvöld klukkan tíu.

„Það er mikill heiður fyrir okkur líka þar sem austfirskt þema verður í gangi þar og er þetta því ákveðin viðurkenning á upprunanum. Við stefnum svo á að spila meira í sumar og erum spenntir að viðra nýju plötuna á komandi misserum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar