![](/images/stories/news/2017/Úr_myrkrinu_í_ljósið_seyðisfjörður.jpg)
„Áþreifanlegt hvað við Seyðfirðingar stöndum saman“
„Vissulega er þetta mögnuð mæting, en þetta er bara samfélagið okkar í hnotskurn, alltaf þegar eitthvað er gert sem einhver meining er á bak við, þá stöndum við saman sem ein fjölskylda,“ segir Eva Jónudóttir, þjónustufulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar, en áttatíu manns gengu saman Úr myrkrinu inn í ljósið á Seyðisfirði aðfaranótt sunnudags.
Gangan Úr myrkrinu inn í ljósið, eða Darkness into Light, var haldin í fyrsta sinn fyrir níu árum í Írlandi af Pieta House, sem er úrræði fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaða. Fyrst var gengið í Reykjavík í fyrra og með þátttöku í göngunni gefst tækifæri til að heiðra minningu þeirra sem látist hafa af völdum sjálfsvíga og vekja athygli á alvarleika þessa málefnis. Gengið er undir merkjum sjálfsvígsforvarnarsamtakanna Pieta Ísland til að vekja athygli á sjálfsvígum, sjálfsskaða og sjálfsvígsforvörnum.
Var þetta í fyrsta skipti sem gangan var á Austurlandi, en gengið var á Norðfirði aðfaranótt laugardags og á Seyðisfirði aðfaranótt sunnudags.
Sérstakt kosmós á Seyðisfirði
„Ég held að kveikjan hafi verið sú sama að göngunni í ár, bæði hér og í Neskaupstað, en Bjarni Jóhannes Ólafsson tók sitt eigið líf fyrir skemmstu og það var faðir hans, Ólafur Sigurðusson og kona hans, Kolbrún Lára Vilhelmsdóttir, stóðu fyrir göngunni hér. Gangan var ákveðin með afar skömmum fyrirvara, auglýst á fimmtudaginn og það vissi enginn hvernig mætingin yrði. Svo mætti allur þessi fjöldi, bæði börn og fullorðnir, meira að segja fylgdi okkur bíll með eldri konu sem treysti sér ekki til þess að ganga, en hún missti einmitt son á þennan hátt.
Maður er svo ótrúlega stoltur af því að vera Seyðfirðingur á svona stundum, þetta var svo falleg og hlý stund – fólk faðmaðist og leiddist um miðja nótt í þoku og kulda. Enn einu sinni sannaðist það, það er áþreifanlegt hvað við Seyðfirðingar stöndum saman þegar á móti blæs, það er bara eitthvað sérstakt kosmós á staðnum sem við íbúarnir myndum, um það erum við öll sammála.“