Austfirðingum boðið í kaffi með flóttafólki

Rauði krossinn býður Austfirðingum í kaffi á laugardag með hópi úkraínsks flóttafólks sem í síðasta mánuði settist að á Eiðum. Hópurinn kann vel við sig eftir fyrstu dagana og er að stíga sín fyrstu skref í atvinnulífi og samfélagi eystra.

„Við ætlum að bjóða Austfirðingum og þeim sem búa á Eiðum í kaffi og vonumst til að heimafólk bjóði þá hjartanlega velkomna í samfélagið fyrir austan,“ segir Róbert Theoródsson, verkefnastjóri í málefnum flóttafólks hjá Rauða krossinum.

Kaffiboðið verður í sal Rauða krossins að Dynskógum 4 á Egilsstöðum, á neðri hæð nytjamarkaðar samtakanna milli klukkan 14 og 16 á laugardag. Áhugasamt fólk getur einnig kynnt sér þar verkefni Rauða krossins sem tengjast flóttafólki en unnið er að því að koma upp félagsneti sem hjálpar flóttafólkinu að komast inn í samfélagið.

„Rauði krossinn er í sálfélagslegum stuðningi þar sem markmiðið er að efla félagsvirkni og koma í veg fyrir félagslega einangrun. Við vinnum að gagnkvæmri aðlögum flóttafólks að íslensku samfélagi og sjáum kaffiboðið sem gott tækifæri fyrir heimafólk til að kynnast þeim sem sest hafa að á Eiðum.

Við vonumst eftir að fá sjálfboðaliða á svæðinu til að taka þátt í því með okkur. Við erum annars vegar með pörunarverkefni sem oft er þekkt sem stuðningsfjölskylda en við köllum leiðsöguvin eða tungumálavin, þar sem við pörum saman heimafólk við einstakling sem nýtur alþjóðlegrar verndar.

Viðkomandi hefur þá einhvern sem hann getur leitað til með spurningar um íslenskt samfélag og menningu, er hans haukur í horni og aðgangur að íslensku tengslaneti. Það gefur þeim einnig möguleika á að æfa tungumálið. Eins höfum við séð fyrir okkur að vera með mánaðarlega viðburði þar sem fólk hittist í stærri hópi.“

Sérstaklega er leitað að karlmönnum til að gerast sjálfboðaliðar þar sem aðeins ein kona er í sextán manna hópnum á Eiðum. Aldursbilið er breitt, yngsti einstaklingurinn rúmlega 22ja ára en sá elsti á sjötugsaldri.

Hópurinn kom austur fyrir rúmum mánuði og kann vel við sig að sögn Róberts. „Fólkið er smám saman að komast í vinnu, sem er það sem það vill. Þannig er hluti hópsins núna í þjálfun hjá Alcoa Fjarðaáli. Því líður vel á Eiðum og er mjög ánægt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar