Baðaði sig við rætur nýrunnins Holuhrauns

„Það er svo dýrmætt að geta nýtt sér náttúruna okkar, með svamli og afslöppun í heitu, tæru vatni úr jörðinni og auðvitað best ef það er smá grænt jukk með,“ segir Jónína Brá Árnadóttir sem hefur þrætt nokkrar af helstu náttúrulaugum landsins að undanförnu og gefið þeim einkun á sínum síðum á samfélagsmiðlum.


„Þetta gerðist eiginlega bara óvart og hófst sem einhvers konar dagbókarfærsla á Instagram þegar við vorum að ferðast um Vestfirði,“ segir Jónína Brá, aðspurð um hvers vegna hún fór að skrá umsögn um hverja laug sem hún og kærasti hennar, Kári Lefever fóru í.

„Okkur Kára fannst við hafa ferðast alltof lítið um Ísland og höfum gagngert reynt að ferðast um landið þegar við eigum gott frí saman. Dagskrá ferðalaganna hefur svo að mörgu leyti litast af áhuga okkar beggja á íslenskri náttúru, þá einna helst fjallgöngum og sundsvamli. Eftir því sem við höfum gert meira fannst mér ég þurfa að punkta niður eftirminnilegar göngur og sund, þannig að ég gæti með auðveldum hætti rifjað upp minningar og þetta „extra“ sem fylgir því oft að upplifa eitthvað nýtt.“

Huglægt og persónulegt mat

Jónína Brá segir einkunnagjöfina vera huglæga og sitt persónulegt mat. „Eitthvað sem ég tengi sérstaklega við í minni upplifun. Nærumhverfi lauganna spilar þar stóran part, áferð vatnsins, almenn búningsaðstaða, hitastig lauga og sturtu. Svo skiptir líka almenn stemmning miklu og fer hún eftir allskonar, til dæmis hvenær dags ég fer í tiltekna laug, hvort ég sé ein eða að laugin sé full af öðru ferðafólki. Þetta spilar svo allt saman og hrærist í einn graut af persónulegri einkunnagjöf sem kemur fram í núinu.“

Hvað er það sem Jónínu Brá þykir svo heillandi við náttúru- og sveitalaugar? „Fyrir mér er það sagan á bakvið laugarnar. Oft eru þetta afskekktar laugar, allavega í okkar skilningi, sem hafa verið nýttar í áratugi, jafnvel lengur, til heilsubótar og sundiðkunar“.

„Ég er engin gúrú“

Jónína segir uppátækið hafa vakið mikla lukku. „Ég er enginn gúrú í þessu samt, hef bara ómældan áhuga á náttúrulaugum og gömlum laugum og og finnst gaman að mynda þær og eiga til að rifja upp góðar minningar. Ég deili því þó gjarnan áfram á mínum samfélagsmiðlum og það hafa nokkrir góðkunningjar beðið mig um tips á sínum ferðalögum. Hef meira að segja fengið áskorun um að blogga um laugablætið mitt. Ég læt stöku myndafærslur duga, enda aðallega fyrir mig gert.“

Jónína Brá segir það þó afar vandmeðfarið að birta myndir af földum perlum sem jafnvel ekki þola mikinn ágang sundgesta. „Flestar lauganna sem ég hef farið í eru þó margar komnar með gps punkta á netinu og auðfinnanlegar, kannski bara því miður í sumum tilfellum. Það segir sig þó auðvitað sjálft að nauðsynlegt er að biðja landeigendur um leyfi til að fara í laugar sem eru á einkalandi og ganga vel um svæði og af virðingu við náttúruna.“

„Laugin í Laugavalladal er dásamleg“

Jónína Brá segir að þó svo að jarðvarmi á Austurlandi sé ekki mikill megi þó finna yndislegar náttúrulaugar í fjórðungnum sem og almennar sundlaugar. „Laugin í Laugavalladal er dásamleg. Selárdalslaug í Vopnafirði er líka frábær en þar rennur heitt vatn úr heitri laug við sundlaugina sjálfa. Í Neskaupstað er mjög fín sundlaug, þá er það útsýnið og gömlu klefarnir sem eiga sinn þátt í sjarmanum. Sundhöllinn á Seyðisfirði er svo upplifun út af fyrir sig og ættu allir að prufa hana, allavega tvisvar. Svo verður spennandi að sjá hvað gerist með fyrirhugaðri uppbyggingu við Urriðavatn á Héraði.“

Baðaði sig við rætur nýrunnins Holuhrauns

Jónína Brá segist ekki hafa hugmynd um hve margar laugar hún eigi eftir að prófa til þess að loka hringnum. Næst á listanum er þó að prufa Hreppslaug í Skorradal og fleiri laugar á Vesturlandi og á Vestfjörðum.

Hún á eina uppáhalds laug af því sem af er. „Við Kári fórum í Jökulsá á Fjöllum við Holuhraun þegar það var upp á sitt besta. Undan nýju hrauninu rann 40° gráðu heitt vatn við upptök Jökulsár. Það var ótrúleg og ólýsanleg upplifun. Að vera ein, upp á hálendi, í tærasta vatni sem ég hef séð, að baða mig í upptökum jökulár við rætur nýrunnins Holuhrauns. Magnað!“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar