Beint til Tenerife frá Egilsstöðum

Ferðaskrifstofan Úrval Útsýn verður með beint flug frá Egilsstöðum til Tenerife í júlí. Framkvæmdastjóri hennar segir möguleika á fleiri slíkum ferðum ef vel takist til.

Fljúga á í leiguflugi frá Egilsstöðum 10. júlí og til baka tíu dögum síðar. Um er að ræða pakkaferð með flugi og gistingu. „Við erum með sömu gistimöguleika á og í öðrum ferðum okkar til Tenerife, allt frá íbúðagistingu upp í fimm stjörnu hótel.

Ef hópar eða stórfjölskyldur eru að ferðast saman þá veitum við aðstoð við að finna gistingu sem hentar. Það er því óhætt að senda okkur línu ef fólk sér ekki strax möguleika sem hentar því,“ segir Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Úrval Útsýnar.

Hún segir ferðaskrifstofuna hafa áhuga á að kanna ferðahug Austfirðinga og annarra úr nánasta umhverfi fyrir beinu flugi. „Það felst meira púsluspil í ferðum sem þessum fyrir okkur en við viljum prófa hvort það sé markaðurinn. Við vitum að NiceAir hélt uppi reglulegu flugi til Tenerife.

Ef þessi ferð gengur vel þá erum við til í að skoða fleiri ferðir frá Egilsstöðum. Flug frá fleiri flugvöllum byggist upp ef heimafólk nýtir sér það og við vonumst eftir að Austfirðingar og nágrannar fylli vélina.“

Sala á ferðina er hafin en hún er með þeim formerkjum að næg þátttaka náist. Þórunn kveðst eiga von á að fljótlega skýrist hvort áhuginn dugi til að ferðin verði farin.

Aðspurð um hvort ekki sé von á það góðu veðri eystra í sumar, sem svo oft áður, að Austfirðingar hafi lítið í erlenda sól að sækja svarar Þórunn glettin: „Mér heyrist að það sé það mikil ásókn í gistingu á Austurlandi á þessum háannatíma þannig að það sé gott að einhverjir fari að heiman í smá tíma!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.