„Betra að vera stjarna fyrir austan en eitt núll í KR“

Fáskrúðsfirðingurinn Skúli Margeir Óskarsson, á sínum tíma nefndur „Stálmúsin“ var í lok nýliðins árs tekinn inn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Árið 1980 varð hann fyrstur Íslendinga til að setja viðurkennt heimsmet í íþróttum. Fyrir þremur árum fékk Skúli heilablóðfall og hjartaáfall með stuttu millibili.

Skúli er fæddur á Fáskrúðsfirði í september 1948. Hann er tvíburi, vó aðeins þrjár merkur við fæðingu og hefur sagt söguna þannig að hann hafi leynst í fylgjunni með bróður sínum. Árið 1980 setti hann heimsmet í réttstöðulyftu í Laugardalshöll með að lyfta 315,5 kílóum í 75 kg flokki. Skúli var útnefndur íþróttamaður ársins 1978 og 1980.

„Ég man ekki annað en æskan á Fáskrúðsfirði hafi verið ágæt. Ég var eins og hvert annað barn, braust inn og stal ef ég gat og það sem maður var át var gott því maður stal því. Ég byrjaði í frjálsíþróttum og fótbolta. Við fengum að heyra frá þeim sem eldri voru að þetta væri bara leikur en fyrir okkur var þetta upp á líf og dauða. Ég var ágætur í fótboltanum en hættulegur við eigið mark,“ segir Skúli í samtali við vikublaðið Austurgluggann.

Skúli ólst upp á síldarárunum á Fáskrúðsfirði og byrjaði þar að sýna krafta sína. „Ég byrjaði að vinna í bræðslunni og á síldarplönunum þegar hægt var að nota mig. Bróðir minn var frekar ráðinn því hann var stór og sterkur en það gekk seint að nota mig því ég var svo lítill. Maður hljóp niður á síldarplönin eftir holóttum moldarvegunum, svo til baka heim í kaffi, settist þar á náðhúsið, vaknaði þar klukkutíma síðar og fór til baka en dauðskammaðist sín.

Í bræðslunni voru 50 kg sementspokar sem maður henti upp fyrir haus. Ég man eftir einu atviki, með mér var bæjartröll og ég setti þrjá sementspoka saman. Ég rétt náði utan um þá en lyfti þeim upp og labbaði með þá. Þegar ég leit við og ætlaði að fá hrósið frá manninum var hann horfinn.“

Horfir alltaf eftir gömlu lóðunum fyrir austan

Skúli komst í kynni við lyftingar, eða „stálið“, á vertíð í Vestmannaeyjum 1969. Hann hélt áfram að æfa við bág skilyrði eftir að hann kom aftur til Fáskrúðsfjarðar. Ferillinn fór hins vegar af stað af alvöru eftir ár á Seyðisfirði.

„Ég fékk herbergi niður í Skrúð og það heyrðust ofsahljóð út um dyr og glugga þegar ég var að rembast. Fyrstu lóðin voru tannhjól sem verksmiðjustjóri lét lengja fyrir mig og setja plast í miðjuna á þannig þau snérust. Bóbó vinur minn geymir þau fyrir mig eystra í Sætúni. Þau eru alltaf það fyrsta sem ég horfi eftir þegar ég kem austur. Það voru aðrir sem gátu lyft meiru en ég en ég tók mína stefnu og hélt henni áfram.

Ég var eitt ár á Seyðisfirði og æfði með Jóhanni Sveinbjörnssyni. Ég lét hann kaupa fyrir mig tækin, ég sendi allan peninginn til hans því ég var svo hræddur um að ég eyddi honum. Jóhann tók á móti mér eins og ég hefði verið týndur að koma heim eftir 30 ár í Víetnam.

Þorvaldur Jóhannsson sá okkur æfa og sagði að við ættum að fara strax suður í keppni. Ég spurði hann hvort hann væri brjálaður, að við færum að glíma við þau tröll. Hann sagði okkur að fá að vita hver metin væru, hann fékk þau og þá sáum við að við vorum býsna nálægt, ef ekki yfir. Við fórum suður á íþróttahátíð 1970, sem var eins og að fara til útlanda í æfingabúðir. Okkur gekk vel, ég ætla ekki að vera grobbinn þótt ég sé það, ég vann og Jóhann varð þriðji. Þessi ferð varð bensín á bálið.“

Stoltur Fáskrúðsfirðingur

Allan sinn keppnisferil keppti Skúli undir merkjum UÍA og Leiknis Fáskrúðsfirði þótt hann byggi á höfuðborgarsvæðinu. „Ég er stoltur af að vera Austfirðingur, tala nú ekki um Fáskrúðsfirðingur.

Þegar ég sá að ég ætlaði að verða góður en fann að það yrði ekki gert neitt sérstakt fyrir mig syðra ákvað ég að lifa lífinu eins og ég gerði. Þegar einhverjir fyrir sunnan reyndu að fá mig úr UÍA svaraði ég að það væri betra að vera stjarna fyrir austan en eitt núll í KR. Ég er mikill Austfirðingur og vona að ef ég fari í kistu verði hún sveipuð fána UÍA eða hann nálægt.“

Skúli hefur haft fasta búsetu á höfuðborgarsvæðinu síðan snemma árs 1973. Hann var í Eyjum þegar gosið braust upp 23. janúar það ár. Hann ætlaði að vera þar skamman tíma til að æfa fyrir Íslandsmótið en ílengdist því hann taldi sig verða að æfa meðal þeirra bestu til að geta keppt við þá.

Heimsmetið

Afrekið sem stendur upp úr á ferlinum er hins vegar heimsmetið sem Skúli setti 1980. „Ég var nýbúinn að meiða mig í öxlinni, ég fann svo til að ég gat varla lyft stönginni. Það var heimsmeistaramót fram undan en ég ákvað að mig langaði ekki út ef ég ætti ekki möguleika á að lenda í verðlaunasæti. Ég fann ég átti séns í metið svo ég ákvað að vera heima og stefna að því.

Síðan var í Laugardalshöll haldið Norðurlandamót í ólympískum lyftingum unglinga. Því fylgdu þrír löggiltir dómarar sem gátu dæmt hjá mér og ég fékk leyfi til að lyfta í hléi í keppninni. Á sama tíma var knattspyrnuleikur og það þustu allir inn í salinn svo þar voru margir meðan ég lyfti. Þegar ég var búinn fannst mér fáir eftir. Ég vona að ég hafi ekki skemmt fyrir þeim leikinn.

Ég lyfti þungu í upphituninni, 280 kg og mörgum leist ekkert á það, það hefði verið nóg að fara í 260 kg. Einn kunningi minn var æstur og heimtaði að stöngin yrði þyngd, ég myndi reyna við 317,5 kg. Ég sagði nei við því, vildi ekki meira en 315,5. Það var rétt, um leið og ég var búinn að rétta úr mér fann ég að vinstri höndin var að opnast. Þetta dugði þannig ég gat sleppt. Ég hefði misst stöngina rétt ofan við hné hefði hún verið þyngri.“

Íslendingar hafa hins vegar alltaf átt sínar sögur um aflraunamenn. „Í gamla daga heyrði maður munnmælasögur um kappa sem gerðu hitt og þetta. Síðan fóru menn að mæla og vigta, sem var jákvætt. Þegar einhver ætlar að taka mann í nefið með svona sögu segi ég þeim að það hafi verið heppni fyrir mig að amma gamla hefði ekki hlaupið 100 metra hlaup, hún hefði verið miklu fljótari en ég. En það er alltaf gaman að heyra sögurnar.“

Jesú og sá með hornin vildu mig báðir

Í mars verða þrjú ár liðin síðan Skúli fékk heilablóðfall og síðan hjartaáfall. Um viku fyrr hafði hann látið af störfum vegna aldurs og kvatt vinnufélaga sína.

„Ég fékk blóðtappa í gegnum sjóntaugina. Þeir opnuðu á mér hausinn, tóku eitthvað slæmt og eitthvað gott um leið en snertu sjóntaugina í leiðinni. Það þýðir að ég er jafnvægislaus en líka máttlaus því ég má ekki taka á. Ég þarf að passa þrýstinginn upp í hausinn.

Ég var enn á sjúkrahúsinu þegar ég fékk hjartastopp – þó ekki nóg til að sjá ljósið. Óli frændi minn, sem er sjúkraliði, var réttur maður á réttum stað og bjargaði lífi mínu. Hann var að gefa mér Nóa kropp þegar hann sá mig stirðna upp og blána. Hann byrjaði að pumpa mig. Ég var helaumur eftir karlinn en ef ekki hefði verið fyrir hann þá væri ég annaðhvort dauður eða alveg lamaður. Ég ét samt sennilega ekki aftur kropp.

Ég segi söguna þannig að ég hafi skroppið yfir, séð Jesú og manninn með hornin. Þeir hafi báðir viljað fá mig en ég hvorugan viljað og ég hljóp svo hratt til baka að þeir náðu mér ekki. Hér er ég að tala við ykkur.

Þetta var eins og að sofna, ég varð ekki var við neitt, en það var eitt svolítið skrýtið. Mér fannst ég standa við hliðina á frænda mínum við rúmið og spjalla við hann en ég lá í því.

Ég held að því ég hef átt svo gott líf hafi snillingarnir sem öllu ráða ákveðið að láta mig takast á við þetta,“ segir Skúli. Skert jafnvægisskynið þýðir að hann styðst gjarnan við staf og má ekki keyra.

„Læknirinn kvað upp hálfgerðan Salómonsdóm yfir mér, ég yrði að hreyfa mig. Ég fer í Salalaugina alla daga nema sunnudag. Ég lyfti eins og ég má, ég er fínn ef ég sit kyrr en missi jafnvægið ef ég hreyfi mig. Ég á heima rétt hjá, það eru forréttindi að búa svona nærri. Ég segi oft að göngutúrinn hafi bjargað mér, ég færi ekki svona oft ef ég þyrfti að láta keyra mig. En ég er heppinn og lánsamur með allt og sáttur við Guð og menn. Ég get ekki beðið um meira.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar