Blása skal nýju lífi í Tærgesen á Reyðarfirði

Nýir eigendur tóku við hinu þekkta veitinga- og gistifyrirtæki Tærgesen á Reyðarfirði fyrir réttri viku síðan og vill nýr framkvæmdastjóri blása nýju og fersku lífi í staðinn.

Tærgesen þekkja velflestir Austfirðingar enda bæði eitt sögufrægasta hús fjórðungsins og notið vinsælda sem góður veitingastaður um langa hríð. Fyrri eigendur þau Sandra Þorbjörnsdóttir og Jónas Helgason hafa rekið staðinn um fjórtán ára skeið og sannarlega komið honum á kort bæði Austfirðinga og ferðafólks. Þau hyggja á ný ævintýri á Norðurlandi með vorinu.

Einn nýrra eigenda og framkvæmdastjóri er Gunnar Viðar Þórarinsson, athafnamaður, en hann keypti reksturinn í samvinnu við feðga fyrir sunnan en lyklana fengu þeir afhenta snemma í síðustu viku. Tærgesen hefur í töluverðan tíma verið til sölu.

„Við sjáum töluverð tækifæri í þessum rekstri og þar kannski helst að okkar langar að blása nýju lífi í húsið. Gera hann að skemmtilegum og notalegum miðpunkti í bænum og okkar fyrstu verk lúta að viðhaldi hússins bæði að utan og innan. Það væri alveg hægt að eyða tugum milljóna í endurbætur en við ætlum að forgangsraða hlutunum og byrja á að endurnýja loftræstikerfið og dytta að ýmsu sem farið er að láta á sjá svona sem fyrstu skref. Maturinn hefur alltaf þótt góður og því höldum við áfram á lofti og hann Jónas Helgason verður með okkur til að byrja með.“

Gunnar segir bókunarstöðu fyrir komandi sumar vera afar góða og spennandi verði að sjá hvort bæjarbúar og gestir taki ekki vel í umbætur innan og utan þegar fram líða stundir. Við tökum sannarlega við öllum ábendingum bæjarbúa um það sem betur má fara

„Svo finnst mér þetta hús mjög sjarmerandi og saga þess auðvitað stórmerkileg út af fyrir sig en það er yfir 150 ára gamalt og var orðið 42 ára gamalt minnir mig þegar Titanic sökk þannig að húsið út af fyrir sig er aðdráttaafl.“

Ekki aðeins er Tærgesen húsið eitt það merkasta á Austurlandi heldur og hlaut það nokkra frægð þegar þættirnir Fortitude voru teknir upp í Fjarðabyggð fyrir nokkrum árum síðan. Mynd Tærgesen

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar