Börnin opna sinn persónulega fjársjóð á menningarmótum

Áhersla er á að fjölga notendum og neytendum menningar með að fjölga menningarverkefnum sem sérstaklega eru ætluð börnum. Vel heppnuð íslensk barnamenningarverkefni voru kynnt á ráðstefnu sem Austurbrú stóð fyrir í gær.

Evrópusambandið hefur að undanförnu aukið áherslu á barnamenningu. Norðurlöndin hafa tekið upp þá stefnu og Ísland er á leið á sömu braut. Boðað var til fundarins í gær til að ræða hvernig Austurland geti verið með í þessari bylgju.

„Við höfum metnað fyrir því að vera framarlega í þessum málaflokki,“ sagði Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Hugmyndir eru uppi að halda barnamenningarhátíð á Austurlandi á næsta ári og hafa fulltrúar Skólaskrifstofu Austurlands, menningarmiðstöðva og sveitarfélaga átt í óformlegum viðræðum þar um. Með slíkri hátíð er vonast til að gera sýnilegra það menningarstarf sem þegar er í gangi.

Ólöf Breiðfjörð, verkefnastjóri fræðslu- og kynningarmála hjá Menningarhúsunum í Kópavogi, kynnti meðal annars vinnu sem verið hefur í gangi hjá Kópavogsbæ. Þar hafa fjölskyldur verið hvattar til að heimsækja menningarhúsin, meðal annars með fjölskyldustundum á laugardögum. Bærinn stendur einnig fyrir sumarnámskeiðum sem notið hafa mikilla vinsælda.

Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kennari og verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafni, hefur staðið að baki menningarmótum hérlendis í tæp tíu ár en verkefnið þróaði hún sem kennari í Danmörku.

Kristín vinnur mikið með tungumálið og leggur áherslu á að krakkarnir kynni sinn bakgrunn. Þar með séu þau að opna sinn persónulega fjársjóð. „Þegar við tengjum við tilfinningar við tungumálið eru meiri líkur á að við tengjum við það,“ sagði hún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar