Bræðslusumarið byrjar með látum

„Við byrjum með látum næstkomandi föstudagskvöld þegar Jónas Sigurðsson snýr aftur hingað í Fjarðarborg til að fagna fimm ára afmæli Tónleikamaraþonsins. Hann kemur með gítarhetjuna Ómar Guðjónsson með sér og þetta verður eitthvað magnað,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, einn vertanna í Fjarðaborg.



Tónleikasumarið er að hefjast á Borgarfirði eystri og verður stanslaust stuð á staðnum fram yfir Bræðslu.

„Nú eru fimm ár síðan Jónas Sigurðsson hélt 18 tónleika á 20 dögum í Fjarðarborg. Samtals urðu tónleikagestirnir yfir 3000 talsins og einstök stemmning skapaðist í kringum gjörninginn. Nú snýr Jónas aftur með vin sinn Ómar Guðjónsson gítarleikara með sér sem kom fram á þriðju tónleikunum í seríunni árið 2012. Ýmsir fastagestir Tónleikamaraþonsins munu einnig láta ljós sitt skína á sviðinu og búast má við drumbattle, ljóðagjörningi og fleiru. Enginn aðgangseyrir verður á þessa fyrstu tónleika og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Í tilefni þessa sem og 100 ára afmæli UMFB verður blásum við í fyrstu lúðra í Fjarðarborg næstkomandi föstudagskvöld,“ segir Ásgrímur Ingi.

Toppsumar framundan
Ásgrímur Ingi segir sumarið leggjast afskaplega vel í sig. „Við höfum síðastliðin þrjú sumur boðið uppá tónleika flestar helgar frá því í byrjun júní og fram að Verslunarmannahelgi. Við stefnum á það sama í sumar. Tónleikarnir á föstudaginn verða án efa geggjaðir og góð byrjun á sumrinu. Það má búast við aðeinhverjir af þeim sem komu fram í Tónleikamaraþoninu á sínum tíma láti ljós sitt skína einhverntíman í sumar.

Svo er ýmislegt í pípunum en það sem ég get staðfest er Mugison og Örn Eljárn og Valdimar Guðmundsson. Í Bræðsluvikunni verða þrennir tónleikar og við kynnum það nánar þegar nær dregur. Svo verður vonandi góð stemmning í kringum Dyrfjallahlaupið þegar það fer fram 22. júlí. Það kvöld verða Örn Eldjárn og Valdimar hér og vonandi húsfyllir enda 200 manns skráðir í hlaupið. En ætli það verði samt nokkur breyting á því að Bræðsluvikan verði toppurinn á sumrinu.“

Hér má fylgjast með herlegheitunum í Fjarðaborg í allt sumar. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar