Chögma í þriðja sæti Músíktilrauna

Hljómsveitin Chögma úr Fjarðabyggð endaði um helgina í þriðja sæti Músíktilrauna árið 2024. Einn hljómsveitarmeðlima fékk sérstök verðlaun fyrir færni sína.

„Maður er þreyttur og sár í hálsinum. Tilfinningin er líka örlítið blendin. Það er frábært að hafa náð þriðja sætinu en maður vill alltaf komast hærra,“ segir Elísabet Mörk Ívarsdóttir, söngkona Chögma.

Hljómsveitin var stofnuð fyrir um hálfu ári og hafði einu sinni komið fram, á tónleikum í Neskaupstað, þegar hún keppti á undanúrslitakvöld Músíktilrauna. Hún fékk mikið lof og flauga áfram í úrslitin á laugardag.

Árangur að komast á verðlaunapall


Þar var hún fyrst á svið sem Elísabet segir að sé alltaf krefjandi því allir í salnum séu að venjast aðstæðum. Svo fór að lokum að Chögma varð í þriðja sægi auk þess sem Jónatan Emil Sigþórsson var valinn besti trommuleikarinn.

„Þegar adrenalínið jafnast út þá sér maður hvað árangurinn er glæsilegur. Það eru 43 atriði sem komast inn á úrslitakvöldin, það er valið inn á þau úr lögum sem hljómsveitirnar senda inn. Þannig það er flott að hafa komist inn, enn flottara að hafa komist í úrslitin og brjálað að ná á verðlaunapall,“ segir Elísabet Mörk.

Á Soundcloud-síðu Músíktilrauna eru lög með öllum hljómsveitunum sem tóku þátt. Lag Chögma, Veðurfréttir, hefur þar fengið langflestar spilanir. Hljómsveiting spilaði það og Destruction á úrslitunum en bætti við laginu Kláði. „Við erum ánægð með hvernig það kom út,“ segir Elísabet Mörk.

Undirbúa tónleika næstu mánaða


Auk Elísabetar, sem kemur frá Fáskrúðsfirði og Stöðfirðingsins Jónatans, eru í sveitinni Norðfirðingarnir Jakob Kristjánsson, gítarleikari, Stefán Ingi Ingvarsson, bassaleikari og Kári Kresfelder Haraldsson hljómborðsleikari. Þau eru komin austur og eru að róa sig niður fyrir næstu skref.

Allar úrslitasveitirnar taka þátt í Hitakassanum í apríl. Það er dagur með námskeiðum og fyrirlestrum auk þess sem spilað verður fyrir lykilfólk úr íslenskum tónlistarbransa. Chögma er síðan bókuð á nokkra tónleika á næstunni svo sem sjómannadaginn og listahátíðina Innsævi í Fjarðabyggð auk pönkhátíðarinnar Austur í rassgati í haust.

„Við vorum bókuð á þá hátíð strax eftir fyrstu tónleikana okkar í haust. Síðan vorum við bókuð eftir eftir undanúrslitin. Við erum síðan að skoða fleiri möguleika á næstu mánuðum,“ segir Elísabet Mörk að lokum.

Mynd: Músíktilraunir/Brynjar Gunnarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar