Chögma í úrslit Músiktilrauna: Þar til í fyrradag þekkti enginn okkur

Austfirska hljómsveitin Chögma tryggði sér á miðvikudagskvöld sæti í úrslitum Músíktilrauna með frammistöðu sem vakið hefur athygli. Hljómsveitarmeðlimir eru ánægðir með viðtökurnar og hlakka til úrslitakvöldsins.

„Þetta er búið að vera pínu skrýtið. Í fyrradag þekkti enginn okkur en síðan á undankvöldinu höfum við fengið mikla athygli,“ segja meðlimir Chögma.

Sveitina skipa þau Elísabet Mörk Ívarsdóttir, söngvari, Jakob Kristjánsson, gítarleikari, Stefán Ingi Ingvarsson, bassaleikari, Kári Kresfelder Haraldsson hljómborðsleikari og Jónatan Emil Sigþórsson tommari. Elísabet Mörk kemur frá Fáskrúðsfirði og Jónatan Emil Stöðvarfirði en þau eru bæði í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað þar sem sveitin hefur bækistöðvar sínar.

Óvænt og framúrskarandi


Í dómi Heiðu Eiríksdóttur, sem gjarnan er kennd við hljómsveitina Unun, í Heimildinni í gær segir að atriði Chögma hafi verið „frumlegt, óvænt og framúrskarandi.“ Jónatan er sagður hafa sýnt „afburðatakta“ á trommurnar og að Elísabet hafi getað sungið „bæði nánast ómannlegar nótur og öskrað úr sér lungun.“

Þau segjast hafa farið hóflega bjartsýn inn í undanúrslitakvöldið. „Við reyndum að vera ekki bjartsýn þannig skellurinn yrði ekki of mikill ef við kæmumst ekki áfram,“ segir Elísabet. Félagar hennar segja þó að vonin hafi alltaf verið til staðar. „Við erum glöð með að fólki hafi líkað tónlistin okkar og þakklát fyrir að fá að spila aftur.“

Framsækinn metall


Á undanúrslitakvöldum fá hljómsveitir að spila tvö lög en þrjú á úrslitakvöldinu. Þær ráða hvort þær taka sömu lögin og bæta einu við eða spila þrjú ný lög. Chögma spilaði í fyrrakvöld lögin Destruction og Veðurfréttir og bætir á morgun við laginu Kláði en texti þess er byggður á íslensku kvikmyndinni Þrestir frá árinu 2015.

Árangurinn er ekki síst merkilegur í ljósi þess að þetta er í annað skiptið sem Chugma kemur fram opinberlega. Fyrra skiptið var í Egilsbúð í haust á tónleikum til styrktar geðheilbrigðismálum í haust.

Þau lýsa tónlist sinni sem „framsæknum metal“ eða „metal með melódíu“ sem sæki áhrif úr ýmsum áttum. „Ekkert okkar hlustar á sömu tónlistina. Við blöndum því síðan öllu saman og búum til okkar tónlist.“

Af hverju Chögma?


Um nafnið segja þau að það sé „tsjögg í tónlistinni“ en það hugtak er almennt notað þegar hljóð úr gítar, yfirleitt frá djúpa E-strengnum, er dempað. „Þetta hljómaði vel, leit vel út og heggur aðeins í“ Um samblöndun c og ö í nafninu bæta þau við: „Við vildum íslenskuvæða nafnið með ö-inu. Túristar elska að sjá svona íslenska stafi. Þetta er alveg úthugsað!“

Úrslitin á morgun, laugardag, fara fram í Norðurljósasal Hörpu og hefjast klukkan 17:00. Dómnefnd velur sigursveitina en hægt er að kjósa hljómsveit fólksins í símakosningu. Sérstök verðlaun eru veitt efnilegustu hljóðfæraleikurunum. Sent er beint út frá úrslitunum í útvarpi á Rás 2 og í sjónvarpi hjá RÚV2. Ein austfirsk hljómsveit hefur unnið Músíktilraunir. Það voru Dúkkulísurnar árið 1983.

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar