Chögma: Þakklát fyrir að hafa komist langt á stuttum tíma

Hljómsveitin Chögma úr Fjarðabyggð lenti í þriðja sæti Músíktilrauna í ár auk þess að fá viðurkenningu fyrir besta trommuleikarann. Sveitin spilar framsækinn metal sem er þversumman af þeim áhrifum sem meðlimir hennar verða fyrir.

Það eru þau Jakob Kristjánsson, 17 ára gítarleikari úr Neskaupstað, Jónatan Emil Sigþórsson, 19 ára trommuleikari frá Stöðvarfirði, Kári Kresfelder Haraldsson, 21 árs hljómborðsleikari úr Neskaupstað og Elísabet Mörk, 18 ára söngkona frá Fáskrúðsfirði, sem setjast niður með okkur í húsnæði BRJÁN (Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi) í gamla Tónspili í Neskaupstað.

Bassaleikarinn, hinn 24 ára gamli Norðfirðingur Stefán Ingi Ingvarsson, er fjarverandi vegna vinnu. Hér hafa þau æfingaaðstöðu sína. Elísabet Mörk er í framhaldsskóla í Neskaupstað og Jónatan vinnur þar. Hluti Chögma er líka í stjórn BRJÁN.

Eftir að tónlistarverslun Tónspil lokaði keypti SÚN húsið og afhenti BRJÁN. Á neðri hæðinni stendur til að gera lítinn tónleikasal en vera með æfingaaðstöðu á efri hæðinn. Nokkrar hljómsveitir eru byrjaðar að koma sér þar fyrir.

„Við hefðum alltaf getað bjargað okkur með aðstöðu en það hefði verið milljón sinnum erfiðra. Þegar ég var yngri langaði mig að stofna hljómsveit en hafði engan stað til að æfa,“ segir Jakob. „Ég held að þessi aðstaða muni gera helling fyrir tónlistarlífið á Norðfirði,“ bætir Jónatan við.

Hljómsveit verður til


Í þessu húsi hefst saga Chögma síðasta sumar. „Ég sat hérna einn dag með hugsunum mínum og hugsaði hvernig band ég gæti búið til sem ynni Músíktilraunir. Ég sendi á Jónatan „Hey – viltu ekki vinna Músíktilraunir?“ og hann svaraði „Yo – let‘s do this,“ segir Jakob.

Sagan er kannski ekki alveg svo einföld. Jónatan segir þá Jakob hafa verið að taka upp fyrir sig og síðan haldið áfram að spila. „Það er það sem þú heldur,“ svarar Jakob en þessi útgáfa virðist þó nær veruleiknum. Síðan fóru þeir að bjóða fleirum með sér, fyrst Stefáni síðan Elísabetu. „Ég sendi á hana: „Geturðu öskrað?“ segir Jakob. „Ég öskraði til hans. Síðan bætti ég við að ég gæti líka gert svona,“ segir Elísabet og sendi Jakobi söng sem hann lýsir sem „nótum á hundatíðni.“

Kári, sem gaf út sólóplötu síðasta haust, var síðastur um borð. „Ég var að taka upp inni í sveit þegar ég fæ símtal frá Jakobi sem spyr hvort ég viti hver hann sé, ég hafði þekkt hann lengi. Hann spurði hvort ég vildi vera í hljómsveit og sagði mér að þau væru í Tónspili. Ég mætti, þau sýndu mér hvað þau væru að gera, spurðu hvort ég fílaði það og vildi spila á hljómborð og ég sagði já.“

Framsækinn metall


Þau lýsa tónlistinni sem „framsæknum metal,“ sem er metall sem orðið hefur fyrir áhrifum úr ýmsum áttum sem endurspeglar þá tónlist sem þau sækja í. Jakob segir þá Jónatan hafa byrjað að leika sér með tónlistina úr tölvuleiknum Doom Eternal og síðan hafi áhrif hinna bæst við. Elísabet segist til dæmis sækja í gruggið, Seattle-rokkið frá tíunda áratugnum, Jónatan í blús og jazz. Jafnvel er sótt í barrokk. „Það sem við spilum er einhvern veginn miðjan á þessu,“ segir Jakob.

Lagasmíðunum lýsa þau sem samvinnuverkefni, einn sendi hugmynd á hina sem síðan spunnu við það. „Þegar við erum komin með grunn þá æfum við hann, sem er besta leiðin til að semja,“ segir Jakob.

Elísabet sér um textagerðina. Hún segist leggja metnað í þá, velta fyrir sér stuðlum, höfuðstöfum og bragformum. „Ég er að hugsa hvert sé erfiðasta ljóðaformið sem ég geti unnið með. Ég er til dæmis að vinna í dróttkvæði núna.“

Hví Chögma?


Nafnið er sérstakt, með c sem ekki finnst í íslenska stafrófinu en íslensku ö-i. Þau hafa útskýrt að það sé dregið af því að „chugga,“ hugtak um það þegar metalgítarleikarar spila með djúpa E-strenginn dempaðan. Forsagan er lengri, fyrsta hugmyndin var „chuggernaut.“ „Við vildum hafa eitthvað kraftmikið sem heggur í mann. Við vitum ekkert hvað Chögma þýðir, þetta er gott bull sem hljómar vel,“ segir Jakob.

Þau vildu íslenskuvæða það með ö-inu en fannst of langt gengið að skrifa „tsj“ í stað „ch“. „Það hefði orðið of erfitt fyrir útlendingana að lesa, eða bera fram“ segir Jónatan. Þau virðast því vera farin að hugsa út í erlenda markaðinn. „Það þarf að hugsa stórt,“ segir Jakob.

„Við viljum líka taka fram að við spilum ekki á hljóðfæri eins og flestir aðrir. Flestir eru með sex strengja gítar og fjögurra strengja bassa en við erum með sjö strengja gítar og fimm strengja bassa. Við förum því dýpra. Dempaður E-strengur verður dempaður A-strengur hjá okkur. Það verður svona extra tsjögg,“ bætir hann við.

Verðlaunuð í Músíktilraunum


Til að komast inn í Músíktilraunirnar þurfti sveitin að senda inn eigin tónlist. Lögin „Destructive“ og „Veðurfréttir“ voru tekin upp í æfingahúsnæðinu og send inn. Eftir það var sveitinni boðið í tilraunirnar. Sveitin spilaði þessi tvö lög og fékk góðar viðtökur á undanúrslitakvöldinu. Á úrslitakvöldinu bættist þriðja lagið við, „Kláði“ en texti þess byggir á íslensku kvikmyndinni Þröstum.

Þau fengu framúrskarandi dóma fyrir frammistöðu sína á undanúrslitakvöldinu. Væntingarnar voru því talsverðar fyrir úrslitin en Chögma náði þar þriðja sæti. „Við settum náttúrulega markið á að vinna en þriðja sætið er frábært. Við erum þakklát enda komin langt á stuttum tíma,“ segja Jakob og Elísabet.

Þá var Jónatan útnefndur besti trommuleikari Músíktilrauna. „Það voru margir góðir trommarar svo þetta er mjög mikils virði. Heiðurinn er líka enn meiri því uppáhaldstrommarinn minn, (Hrafnkell Örn Guðjónsson úr Agent Fresco) var í dómnefndinni.“

Elísabet, Stefán, Kári, Jakob og Jónatan. Mynd: Hafsteinn Guðjónsson/@hafsteinn.bandw

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum.
Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar