![](/images/stories/news/2017/eyrarrosin_eistnaflug_web.jpg)
„Dreymir um að fá Slayer á Eistnaflug“
Tónlistarhátíðin Eistnaflug hefst í dag en Eistnaflugsfaðirinn sjálfur, Stefán Magnússon, er í yfirheyrslu vikunnar á Austurfrétt sem að þessu sinni er á miðvikudegi en ekki föstudegi.
Stefán segir dagskrána í ár vera alveg frábæra en ef hann eigi að benda á eitthvað sem rísi hærra en annað þá geti hann það; „Já, vissulega. Ætli það séu ekki þeir Cavalera-bræður sem voru í sveitinni Sepaltura sem er heimsfrægt apparat í öskurapaheimum. Annars er erfitt að gera upp á milli þessara frábæru listamanna.“
Að þessu sinni verður hliðardagskráin í Beituskúrnum en ekki Egilsbúð, en þétt dagskrá verður fimmtudag, föstudag og laugardag. Nánar má kynna sér hana hér.
Eistnaflug hefur verið haldin árlega frá árinu 2005 og segir Stefán sig ekki hafa órað fyrir því flugi sem hún hefur náð á þessum árum. „Nei, alls ekki, þetta átti bara að vera gott partý!“
Stefán segir hátíðina skipta gríðarlega miklu máli fyrir Neskaupstað og Austurland allt. „Það vantaði alltaf ferðamenn hingað austur og það munar nú heldur betur um að fá þennan hóp hingað á svæðið,“ segir Stefán, en að jafnaði fjölgar um 2500 manns í bænum þessa helgi.
Stefán er að vonum spenntur fyrir hátíðinni en vill biðja gesti um að fara sér hægt á leiðinni austur. „Það er um að gera að gefa sér tíma, skoða landið og njóta. Við viljum enga ofsakeyrslu eða rugl.“
Fullt nafn: Stefán Magnússon.
Aldur: 41.
Starf: Framkvædastjóri Hard Rock Cafe Reykjavík.
Maki: Hrefna Hugosdóttir.
Börn: Júlíus Óli og Ragnheiður María.
Vínill eða geisladiskur? Geisladiskur.
Mesta undur veraldar? Þolinmæðin.
Undarlegasti matur sem þú hefur bragðað? Sellerí.
Hver er þinn helsti kostur? Hvað ég er góður í Karókí.
Hver er þinn helsti ókostur? Langrækinn.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Birgir Jónsson.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Neskaupstaður!
Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vakna snemma, hreyfi mig, vinna, fjölskyldutími.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Ost , mjólk og álegg.
Hvað ertu með í vösunum? Pening og síma.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Jesú eða Dimebag Darell.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Skipta um á rúminu, af því það er alltaf gert áður en maður fer að sofa og þá nennir meður þessu aldrei.
Duldir hæfileikar? Ótrúlegur í að díbíta!
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Stundvísi.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Stunda íhugun, skoða heiminn, vera í stuði.
Settir þú þér áramótaheit? Nei held ekki.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Banna trúarbrögð.
Mesta afrek? Konan mín og börnin okkar.
Einhver hljómsveit frekar en önnur sem þig dreymir um að fá á hátíðina í framtíðinni? Já Slayer.