Fiskverkun Kalla Sveins: Vinnsla, útgerð, kaffihús, fiskbúð og flutningar

Fiskverkun Kalla Sveins hefur verið hornsteinn í atvinnulífi Borgarfjarðar eystra í um þrjátíu ár. Reksturinn tekur á sig ýmsar myndir og meira að segja flutninga til að tryggja að fiskurinn komist á markað.


„Það var ekki um annað að ræða. Hvorki Flytjandi né Samskip vildu sinna okkur með að sækja fiskinn niður eftir þannig við vorum nauðbeygð til að koma fiskinum sjálf upp eftir og þurftum að fjárfesta í tveimur flutningabílum þegar ekki var lengur hægt að fá verktaka í það. Þetta eru býsna margar ferðir, við sendum frá okkur fisk á markað 110-130 daga á ári,“ segir framkvæmdastjórinn og eigandinn, Karl Sveinsson.

Hann byrjaði með útgerð árið 1976 og fiskverkun tíu árum síðar. Síðan hafa bæst við flutningarnir og kaffihúsið Álfacafé á Borgarfirði auk þess sem hann stendur að baki Kjöt- og fiskbúð Austurlands á Egilsstöðum. „Það fer heilmikið af fiski þar í gegn.“

Harðfiskur í aldarfjórðung

Hjá fiskvinnslunni starfa að jafnaði 10 manns en þeim fjölgar yfir sumarið þegar umsvifin aukast í höfninni á Borgarfirði. Hjá Kalla starfa bæði starfsmenn úr Borgarfirði eystra og þeim vestra. „Við höfum verið heppin að fá marga úr hinum Borgarfirðinum. Það er úrvalsfólk.“

Fyrirtækið seldi lengi þorskhausa, skreið og saltfisk á erlendan markað en gerir það ekki lengur. Mest af þeim fiski sem landað er á vegum Kalla Sveins fer á fiskmarkaði en flestir Austfirðingar kannast við hákarlinn og harðfiskinn frá honum. „Við höfum unnið harðfisk í góð 20-25 ár. Þorrablótin og búðirnar í kring versla flest við okkur.“

Amast ekki við þeim forvitnu

Yfir sumarið hanga þorskhausar fyrir utan vinnsluna sem eðlilega vekja forvitni þeirra sem leggja leið sína á Borgarfjörð. „Við höfum hengt þá upp á vorin til að sýna útlendingum hvernig þetta gekk fyrir sig. Þeir eru forvitnir og allir sem vilja fá að kíkja inn. Við auglýsum það ekki sérstaklega en við ömumst ekki við þeim ef okkur er sýndur áhugi.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar