![](/images/stories/news/2025/kommablot231.jpg)
Fjöldi blótar þorrann austanlands á næstu vikum
Þorrinn genginn í garð og með honum hin sívinsælu þorrablót landsmanna hvers vinsældir virðast aukast ár frá ári hin síðari árin. Uppselt er á öll fyrstu blótin austanlands samkvæmt upplýsingum Austurfréttar og það var raunin líka á óopinberu blóti Fáskrúðsfirðinga, hjónaballinu, sem fram fór aðra helgina í janúar.
Það á ekki síst við um austfirsk blót en mörg þau stærstu og fjölmennustu fara fram strax um þessa helgi. Þar annars vegar Egilsstaðablótið og hins vegar þorrablót Reyðfirðinga en bæði fara þau fram í íþróttahúsi bæjarbúa á báðum stöðum í kvöld.
Annað kvöld verður ekki minni skemmtun á þremur stöðum austanlands. Þar kannski einkar sérstök stemmning fyrir blóti Seyðfirðinga sem haldið er í íþróttamiðstöð staðarins en það blót er sérstakt fyrir þær sakir að hér er um að ræða 50 ára afmælisblót og því meira um húllumhæ en venjulega.
Seyðfirðingarnir eru þó ekki einir um skemmtun og kræsingar annað kvöld því Vopnfirðingar og Eskfirðingar halda líka sín þorrablót á sama tíma. Þá er svokallað sveitablót haldið í Egilsbúð í Neskaupstað.
Tæpri viku síðar, 31. janúar, mæta Fellamenn galvaskir í betri fötunum og njóta matar og gleði í Smiðjuseli í Fellabæ og degi síðar, þann 1. febrúar, koma Kommarnir saman á Kommablótinu í Neskaupstað og það gera einnig íbúar Djúpavogs sem koma saman á Hótel Framtíð til að blóta, sýna sig og sjá aðra.
Í kjölfarið verður blótað hér og þar í fjórðungnum út næsta mánuðinn. Þann 7. febrúar blóta félagsmenn í Félagi eldri borgara á Fljótsdalshéraði í Hlymsölum.
Sólarhring síðar þann 8. mæta vaskir Fljótsdælingar í sínu fínasta pússi í Végarð þar sem borðin svigna undan þorrablótsveigum.
Sex dögum síðar, 14. febrúar, opnar Hjaltalundur fyrir íbúum Eiða- og Hjaltastaðaþinghár sem blóta sitt í hefðbundnu hátíðarskapi og sólarhring síðar fer fólk úr Jökuldal og Hlíð að búa sig til veislu í Brúarási eins og endranær.
Þeir síðustu verða fyrstir segir í guðsspjöllunum. Hvort Breiðdælingar höfðu það í huga þegar dagsetning þeirra þorrablóts var ákveðin skal ósagt látið en þar um slóðir ætlar fólk að koma saman þann 22. febrúar og blóta þorrann. Það sama er uppi á teningnum í Hróarstungunni þar sem blótað verður í félagsheimilinu Tungubúð sama kvöld.
Eins og undanfarin er ekki beint gefið að fá miða á vinsælustu blótin austanlands. Það verið til dæmis raunin á Kommablóti Norðfirðinga eins og víðar. Mynd Facebook/kommablót