Fleiri litir í Regnbogagötunni
Bætt hefur verið í litina í Norðurgötu á Seyðisfirði, eða Regnbogagötunni. Gleðigangan Hýr halarófa á sér þar upphaf og endi á morgun.Gleðiganga hefur verið gengin á Seyðisfirði samhliða gleðigöngu í Reykjavík frá árinu 2014. Fyrst voru það nokkrir einstaklingar sem stikuðu fram og aftur Norðurgötuna því þeir áttu ekki heimangengt í gleðina syðra.
Árið 2015 bættist fleira fólk í hópinn og fyrir gönguna 2016 var gatan máluð í regnbogalitunum sem síðan hafa gert hana heimsfræga. Lappað er upp á götuna tvisvar á ári, í byrjun sumars og fyrir gleðigönguna. Hópur fólks fór af stað til að mála götuna á miðvikudagskvöld og bætti þá við nýjum litum.
Regnbogafáninn hefur fylgt samkynhneigðu fólki frá árinu 1978. Litirnir í honum voru upphaflega átta en vegna þess að litað efni var af skornum skammti lifðu ekki nema sex þeirra af. Skilgreining hinsegin samfélagsins hefur síðan stækkað og fyrir fimm árum kom fram nýr fáni þar sem fimm litir höfðu bæst við sem tákn um fjölbreytileika hinsegin samfélagsins. Þeir litir eru nú líka komnir á Norðurgötuna.
Hýra halarófan leggur af stað úr Norðurgötunni klukkan 14:00 á morgun og gengur hring í bænum. Reglulega er bætt í gönguna og að þessu sinni koma samtökin Hinsegin Austurland sérstaklega að henni.
Pósthjólið fyrst á undan
Snorri Emilsson, einn forsprakka halarófunnar, segir að fyrir Covid-faraldurinn hafi milli 200-300 manns slegist í hópinn í hvert skipti. Í fyrra hafi þátttakan verið ágæt en napurt veður setti strik í reikninginn.
Ólíkt göngunni í Reykjavík sem er með fjölda skreyttra vagna þá hefur aðeins eitt farartæki verið í halarófunni á Seyðisfirði. Fyrirtæki og stofnanir í bænum hafa skipst á að leggja til bíl sem fer fyrir hópnum en Snorri rifjar upp að í fyrstu alvöru göngunni árið 2015 hafi pósthjólið verið í fararbroddi. Á meðan faraldurinn gekk yfir var það bara bíllinn sem ók um bæinn.
Um kvöldið verður síðan slegið upp gleðskap. Snorri leiðir karíókí á Lárunni en í Skaftfelli verður partý með plötusnúð.
Aðrir viðburðir helgarinnar
Af öðrum viðburðum helgarinnar má nefna árlega skógargleði Móður Jarðar í Vallanesi frá klukkan 13-17 á sunnudag. Matur, handverk, tónlist og álfar verða á göngustígnum Orminum sem liggur þar um skóginn og á heila tímanum dagskrá í Vallaneskirkju.
Í Vök Baths verður opið fram undir miðnætti annað kvöld. Það kemur í kjölfar óska viðskiptavina um lengri opnunartíma. Tólf ára aldurstakmark er eftir klukkan 20:00.
Austfjarðaslagur verður í annarri deild karla í knattspyrnu þegar Höttur/Huginn tekur á móti KFA á hádegi á morgun á Vilhjálmsvelli. KFA er sem stendur í efsta sæti deildarinnar og ósigrað í henni í sumar. Spyrnir spilar gegn KFR á Hvolsvelli í fimmtu deild og FHL gegn Augnabliki í Kópavogi í Lengjudeild kvenna. Á sunnudag tekur Einherji á móti Haukum í annarri deild kvenna.
Mynd: Ómar Bogason