Gettu betur: ME snéri taflinu við í bjölluspurningum

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum er komið í átta liða úrslit Gettu betur sem fara í sjónvarpi eftir 35-28 sigur á Verkmenntaskóla Austurlands í gærkvöldi. VA leiddi keppnina framan af en ME snéri keppninni við með mögnuðum endaspretti.

„Við vorum mjög stressuð því við kepptum við mjög sterkt lið og þetta leit ekki alltof vel út á tímabili,“ segir Ása Þorsteinsdóttir, fyrirliði ME-liðsins.

VA liðið, skipað þeim Mörtu Guðlaugu Svavarsdóttur, Jökli Loga Sigurbjarnarsyni og Heklu Gunnarsdóttur var 19-20 yfir eftir hraðaspurningarnar. Þau svöruðu fyrstu bjölluspurningunni rétt en hver þeirra gefur tvö stig og voru þar með komin í þriggja stiga forskot.

Þá tóku við tvær spurningar ME í röð sem kom yfir 23-22 en VA svaraði með öðrum tveimur í röð og var þá yfir 23-26.

Þá snérist keppnin við, ME svaraði fimm bjölluspurningum í röð og alls sjö af síðustu átta spurningunum. „Við tókum eina spurningu í einu eins og þjálfarinn okkar sagði okkur. Við vissum að við gætum náð þeim og þessi runa gerði mikið fyrir sjálfstraustið,“ segir Kristófer Dan Stefánsson.

Keppnin fór fram í Valaskjálf og fjölmenntu stuðningsmenn liðanna tveggja í salinn. „Ég held að þessi keppni undirbúi okkur vel fyrir sjónvarpskeppnina. Við tveir höfum ekki áður keppt fyrir framan áhorfendur með hitt liðið á móti okkur,“ sagði Björgvin

ME komst í sjónvarpið í fyrra og fór þá alla leið í undanúrslit. Ása var í liðinu þá og telur að reynslan hafi skipt máli í gærkvöldi. „Já, ég held það, að hafa verið með lið á móti okkur og áhorfendur.“

„Það er mjög spennandi að fara í sjónvarpið, það er draumur að rætast,“ bætti Kristófer við.

Hann var ánægður með svar sitt um Jóhann Svarfdæling en Björgvin að hafa náð kvikmyndinni Split en það svar kom ME yfir í fyrsta sinn í keppninni.

Ása var ánægðust með að hafa kveikt á Kverkfjöllum. „Ég var ánægðust með það svar því pabbi var í salnum og hann hefði ekki verið ánægður ef ég hefði ekki náð henni,“ segir hún. Faðir hennar er Þorsteinn Bergsson sem orðinn er landsfrægur fyrir þátttöku sína í spurningakeppninni Útsvari.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar