Grýla og Leppalúði á ferð í Fljótsdal
Hin árvissa Grýlugleði verður haldin á Skriðuklaustri sunnudaginn 27. nóvember kl. 14.00. Von er á sagnaálfum og gaulálfum sem munu segja frá og syngja um Grýlu og hyski hennar sem búið hefur um aldir í Brandsöxlinni ofan við Víðivelli í Fljótsdal.
Ef að líkum lætur munu hin hræðilegu hjón renna á lyktina af álfunum og reyna að finna sér eitthvað í svanginn. Því er mikilvægt að börn mæti í fylgd með fullorðnum á Grýlugleðina.
Á Grýlugleðinni verður einnig tilkynnt um úrslit í teiknisamkeppni sem Gunnarsstofnun efndi til meðal nemenda í 6. og 7. bekk grunnskóla á Austurlandi og eftir alla gleðina er jólakökuhlaðborð hjá Klausturkaffi.