Hann er góðviðrismaður Austurfréttar

Valdimar Veturliðason er í yfirheyrslu vikunnar, en það er hann sem prýðir alltaf fréttir þegar greint er frá austfirskri blíðu.

 


„Þetta kom nú bara þannig til að Gunnar Gunnarsson náði af mér þessari einstöku mynd þegar ég var að svala þorstanum og sleikja sólina á Bræðslunni árið 2010, þannig að þetta er algjörlega honum að kenna,“ segir góðviðrismaðurinn Valdimar sem segist telja það afar líklegt að föðurnafn hans ýti enn undir grínið að sama myndin sé alltaf notuð.

Fullt nafn: Valdimar Veturliðason.

Aldur: Verð 30 í ágúst.

Starf: Smiður hjá Tréiðjan Einir.

Maki: Sóley Valdimarsdóttir.

Börn: Sex vikna tvíburarnir Heiður Vaka Valdimarsdóttir og Rúna Björt Valdimarsdóttir.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum, hvað væri það þá? Við mættum fara betur með jörðina okkar.

Hver er þinn helsti kostur? Að vera alveg pollrólegur.

Hver er þinn helsti ókostur? Einstaklega ófundvís, get leitað lengi að hlut sem er beint fyrir framan nefið á mér.

Dulinn hæfileiki? Að sjóða egg á fullkominn hátt.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Að standa við orð sín.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Mér leiðist að þrífa baðherbergi, það er of mikil nálægð við klósett.

Tæknibúnaður? Mjög takmarkaður, Samsung takkasími með litaskjá og leik.

Hvað er í vösunum þínum? Sími, veski og lyklar.

Trúir þú á líf eftir dauðann? Já já, vonandi gerist eitthvað meira.

Þín helsta fyrirmynd? Fjölskyldan held ég bara, foreldrar, afar og ömmur.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að sjá fram og aftur í tímann.

Hver eru þín helstu áhugamál? Búskapur, ferðalög, íþróttir og ábyggilega eitthvað fleira.

Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Gamla rokkið og ýmislegt íslenskt.

Settir þú þér áramótaheit? Já örugglega en það var greinilega ekkert merkilegt.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Núna snúast þeir aðallega um að skipta um kúkableyjur, svæfa og gefa dætrunum að drekka.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagur, þá er öll helgin framundan.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Arsene Wenger þjálfari Arsenal, þyrfti aðeins að fara yfir málin með honum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Alls konar útfærslur af lambakjöti.

Draumastaður í heiminum? Mér finnst voða gott að vera í sveitinni, á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Það verður ekki mikið annað en að sinna börnunum. Kannski kíkja á ísrúnt.

Fer alltaf sama grínið í gang þegar myndin af þér birtist? Já yfirleitt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar