Orkumálinn 2024

Hvetja Seyðfirðinga til að hýrast heima

Fjöldaganga verður ekki gengin á Seyðisfirði í tilefni Hinsegin daga eins og undanfarin ár vegna samkomutakmarkana. Skipuleggjendur göngunnar láta þó ekki deigan síga og hvetja bæjarbúa til að fagna fjölbreytileikanum heima hjá sér.

„Okkur er þetta mikið hjartans mál og viljum alls ekki að dagurinn detti upp fyrir því. Við viljum halda áfram að fagna fjölbreytileikanum eins og við höfum gert hér frá árinu 2016,“ segir Rúnar Gunnarsson, einn skipuleggjenda göngunnar.

Í stað þess að standa fyrir fjöldagöngunni, sem fengið hefur nafnið Hýr halarófa, ætla skipuleggjendur að skipta sér í litla hópa sem fara um öll hverfi bæjarins með regnbogalitina, líflega tónlist og gleði.

Þeir vonast til að bæjarbúar taki þátt í þessu með að koma út í garða sína, spila þar tónlist, hengja upp regnbogalitaðan fatnað eða flagga regnbogafánum á einhvern máta.

Hópurinn hefur meðal annars selt merkjavöru í miðbænum síðustu daga og verið er að skoða með hvaða hætti sé hægt að miðla tónlist göngunnar til bæjarbúa. Áhersla verður þó lögð á samskiptafjarlægð og aðrar sóttvarnir, eða eins og segir í auglýsingu viðburðarins: „2 metrar – hýrum Víði.“

„Við erum að vinna að lokaútfærslu á þessu í dag. Við viljum gera gott úr stöðunni og biðja fólk um að koma út í garð og gleðjast með heima hjá sér,“ segir Rúnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.