Markmiðið er ekki að komast til Hollywood

„Frakkarnir sögðu meira að segja að myndin væri samsvarandi fyrir mörg lítil samfélög í Frakklandi og sú speglun er mjög skemmtileg,“ segir Karna Sigurðardóttir, en heimildarmynd hennar, 690 Vopnafjörður var sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðommi FIPA í Frakklandi á dögunum.


Heimildamyndin 690 Vopnafjörður, sem frumsýnd var síðasta haust í Bíó Paradís, var tekin upp á árabilinu 2012 til 2017. Karna segir myndina fjalla um þann veruleika sem felst í því að búa á Vopnafirði, hún gefi innsýn í tengsl íbúanna við heimabæinn sinn, sjálfsmyndina sem er samofin firðinum og samfélagsleg áhrif sem heldur fólki heima, eða ber það á önnur mið.

Karna fékk boð um að sýna myndina á FIPA-hátíðinni í kjölfar hátíðarinnar Nordisk Panorama síðasta haust. 690 Vopnafjörður var ein þrettán mynda sem kepptu um titilinn besta heimildamyndin á hátíðinni. „Það sem mér þótti kannski áhugaverðast við þetta er að staðurinn og samfélagið Vopnafjörður fékk að ferðast til Frakklands, að áhorfendur fengu tækifæri til að öðlast tilfinningu fyrir Vopnafirði í Frakklandi. Myndin hefur mjög ólíka merkingu fyrir Vopnfirðing sem sér myndina á Vopnafirði, Íslending sem sér myndina í Reykjavík eða fyrir erlenda gesti að sjá hana í Frakklandi,“ segir Karna sem er nýkomin heim frá Frakklandi.

„Gefur mér mest að segja einhverja sögu“
Karna segir það hafa verið góða tilfinningu að sjá 200 manns bíða eftir því að komast inn í sal til þess að horfa á myndina.

„Markmið heimildamyndagerðarinnar getur aldrei verið það að sigra heiminn eða komast til Hollywood. Það er auðvitað þakkarvert að fá tækifæri til þátttöku í keppni en það sem gefur mér mest er að segja sögu og geta sýnt hana fólki sem vill sjá og njóta.“

Karna segir slíkar hátíðir kjörnar til þess að víkka tengslanetið. „Maður hittir fullt af fólki sem hefur verið lengi í iðnaðinum, fréttafólk, þá sem kaupa inn efni fyrir sjónvarpsstöðvar og fleiri. Þetta snýst um að tengjast fólki og segja fólki frá myndinni og sýn manns á verkefnin. Í lok sýningarinnar er svo liður sem nefnist „spurt og svarað“ þar sem hægt er að spyrja höfunda út í myndina en það er mjög áhugavert að heyra hvaða tilfinningar vakna hjá áhorfendum og maður fær tækifæri til þess að rýna í eigið verk og rannsaka eftir að það er tilbúið.“

Umfjallanir um myndina hafa verið mjög lofsamlegar en myndina gerði Karna í slagtogi við myndatökumanninn Sebastian Ziegler og Kristján Loðmfjörð klippti myndina. 690 Vopnafirði er lýst sem „óði til hráslagalegrar fegurðar og einfaldleika með ljóðrænum undirtóni“ og miklu lofi hlaðið á næmt myndmál verksins.

690 Vopnafjörður verður svo aftur á faraldsfæti í febrúar þegar myndin verður sýnd á heimildamyndahátíðinni Big Sky í Missoula, Montana, í Bandaríkjunum. „Þetta er vissulega gefandi og mikil viðurkenning. Svo erum við komin með vilyrði og boð á fleiri erlendar hátíðir svo það verður spennandi að sjá hvernig Vopnafjörður ferðast um heiminn.“ 



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar