Nægjusamur nóvember í Tehúsinu í kvöld

Sú var tíðin að nægjusemi í einu og öllu var Íslendingum flestum nánast í blóð borin. Nú vilja tvenn samtök endurlífga þann gamla sið landans og standa fyrir sérstöku kynslóðaspjalli af því tilefni á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld.

Þar um að ræða samtökin Landvernd og Grænfánann sem í samvinnu við Tehúsið vilja ítreka nauðsyn nægjusemi í nútímanum enda sé slíkt ekkert minna en nauðsynlegt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í veröldinni.

Þar munu koma saman þrjár kynslóðir Íslendinga og ræða, ásamt gestum, um nægjusemina og hvernig ólíkar kynslóðir líta á slíkt fyrirbæri í dag. Ræðumenn eru Guðmundur Ármannsson, bóndi á Vaði, Guðrún Schmidt hjá Landvernd og Glúmur Björnsson, jarðfræðingur sem fara yfir málin fyrr og nú en viðburður þessi er hluti af sérstöku hvatningarátaki samtakanna tveggja sem ber heitið Nægjusamur nóvember. Gestum býðst að fara yfir málin með spjalli og spurningum.

Nóvembermánuður er einn sá allra neysluríkasti enda ófá tilboðin sem dynja yfir þann mánuðinn sérstaklega en nægjusemin er einmitt mótsvar við slíkri neysluhyggju og kann að vera einn allra mikilvægasti þátturinn í að minnka vistspor fólks og þar með rusl og mengun af ýmsu tagi.

Viðburðurinn hefst stundvíslega klukkan 20.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar