![](/images/stories/news/2017/n4_landsbyggdir_web.jpg)
Nýtt landsbyggðablað frá N4
Fyrsta tölublaðið af „N4 Landsbyggðir” kemur út á morgun. Blaðinu verður dreift í 54.000 eintökum í hvert hús utan Höfuðborgarsvæðisins og öll fyrirtæki landsins.
„Í blaðinu leggjum við áherslu á að fjalla um allar byggðir landsins og segja frá því fjölbreytta og spennandi mannlífi sem þrífst á hverjum stað,“ segir Herdís Helgadóttir sem ritstýrir blaðinu.
N4 rekur samnefnda sjónvarpsstöð, framleiðsludeild, hönnunarsvið og gefur vikulega út Dagskrána sem dreift er á Norðurlandi.
Nýja blaðið kemur út hálfsmánaðarlega og verður framhaldið metið eftir fyrstu fjögur blöðin. Ritstjórnarstefna blaðsins er í grunninn sú sama og dagskrárstefna N4 sjónvarps. Austurfrétt/Austurglugginn framleiða þáttinn Að austan fyrri N4.
„Landsbyggðunum verður gert hátt undir höfði og fjallað bæði um atvinnu- og mannlíf með uppbyggilegum hætti og bjartsýnina að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu.
Í hverju blaði verður ein föst síða frá hverjum landsfjórðungi. Í fyrsta blaðinu verður rætt við Esther Brune á Fáskrúðsfirði. Í blaðinu eru QR kóðar sem hægt er að skanna og horfa á viðkomandi innslag úr sjónvarpsþættinum.