„Ómetanleg grunnþjálfun í framsögn og tjáningu“
„Þjóðleikur er einstaklega vel hannað verkefni, bæði hvað snýr að uppeldisfræði og samfélaginu öllu. Það er góður kynningarvettvangur fyrir krakkana að fá að skyggnast inn í þennan heim, hvort sem þau stefna á að halda áfram í leikfélögum eða fara í leiklistarnám. Kristín Amalía Atladóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og Sláturhúss.
Þjóðleikur, leiklistarhátíð ungs fólks í samstarfi við Þjóðleikhúsið, verður haldin í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardaginn. Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks á landsbyggðinni sem er haldin annað hvert ár og er unnin í samvinnu við Þjóðleikshúsið.
Hvaða hópur ungmenna sem er getur tekið þátt í þeim landshlutum þar sem verkefnið er í boði en á Austurlandi hafa það aðallega verið grunnskólarnir á svæðinu sem sett hafa upp leikrit í nafni Þjóðleiks. Hver hópur frumsýnir sitt verk fyrst í heimabyggð og svo á lokahátíðinni í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, sem hefur frá upphafi haft umsjón með verkefninu á Austurlandi.
Reynsla sem nýtist allt lífið
„Ég lít ekki á listgreinar og aðrar greinar innan skólakerfisins sem aðskilda hluti, heldur eitthvað sem vinnur saman þó svo auðvitað sé hægt að vinna með skapandi greinar einar og sér. Vinna þarf að skapandi greinum eins og leiklist með markvissum hætti, en ekki bara annað slagið þegar setja á upp árshátíð eða leikverk. Að mínu viti er starf sem þetta ómetanleg grunnþjálfun í framsögn og tjáningu sem nýtist hvar sem er í lífinu,“ segir Kristín.
Það eru leikhópar frá fjórum grunnskólum á Austurlandi sem sýna leikrit eftir Auði Jónsdóttur og Ævar Þór Benediktsson. Allir eru velkomnir á leiksýningarnar en frítt er inn á þær. Sýningar hefjast kl. 12.00 og fara þær fram á þrem sviðum í Sláturhúsinu.
Að þessu sinni sýna leikhópar frá Egilsstöðum, Eskifirði, Neskaupsstað og Reyðarfirði leikverkin Feita mamma eftir Auði Jónsdóttur og Morð eftir Ævar Þór Benediktsson.