„Planið er að vera ekki alltaf að brugga sama bjórinn“

Brugghúsið Beljandi hefur starfsemi á Breiðdalsvík á haustdögum, en það verður fyrsta brugghúsið sem sett hefur verið á laggirnar á Austurlandi. Áætlað er að framleiða fyrir austfirskan markað til þess að byrja með og færa svo út kvíarnar.



Það eru breiðdælingarnir Daði Hrafnkelsson og Elís Pétur Elísson sem að fyrirtækinu standa. Elís Pétur er útgerðarmaður á Breiðdalsvík en Daði er tannlæknir, búsettur og starfandi í Danmörku. 

„Það er nú pínu fyndið hvernig þetta kom til allt saman en við Elli fengum þessa hugmynd nánast á sama tíma, í sitthvoru landinu, án þess að hafa talað saman,“ segir Daði.

Daði segir að hugmyndin hafi kviknað þegar hann fékk bruggara í tannlæknastólinn hjá sér og fór að ræða við hann um þessi mál.

„Ég hafði svo samband við Pál Baldursson, fyrrverandi sveitarstjóra á Breiðdalsvík, þegar ég var að velta því fyrir mér hvaða húsnæði myndi henta fyrir starfsemina. Hann sagði mér þá frá því að Elli væri einnig að íhuga sambærilega hugmynd. Þegar við Elli ræddum svo saman kom í ljós að við vorum meira að segja með sama nafn í kollinum, Beljanda, eftir fossinum heima.“


Fyrst og fremst hugsað sem samfélagsverkefni

Elís Pétur og Daði festu kaup á gamla sláturhúsinu á Breiðdalsvík undir starfsemina.

„Húsið stendur við hlið kaupfélagsins og höfum við verið að rífa niður veggi og gera allt sem þarf. Við erum byrjaðir að innrétta, græjurnar koma til landsins í júní og Elli setur þær upp þegar hann kemur heim úr fríi í byrjun júlí. Eftir það verður hægt að byrja og við áætlum að það fyrsta bruggið verði tilbúið í ágúst, en ef maður setur á sig skynsemisgleraugun þá hljómar september líklegar, því allt svona tekur lengri tíma en áætlað er.

Elli mun sjá um reksturinn að mestu leyti, þar sem ég bý erlendis, en við reynum að vinna þetta saman eins mikið og hægt, en hann hefur reynslu af rekstri og er duglegur og drífandi karakter.

Við munum ráða fólk til þess að brugga og sjá um dagleg störf þar sem hann er líka í útgerðarrekstri. Gert er ráð fyrir einu og hálfu ársverki við verksmiðjuna og svo verða auðvitað einhver afleidd störf eins og við flutninga og kynningar. Fyrst og fremst hugsuðum við þetta þó báðir sem ákveðið samfélagsverkefni, að fá eitthvað í gang á staðnum, bæði atvinnu og skemmtilegheit.“


Stíla inn á þroskaðri neytendur

Hvert er markmiðið og hvaðan kemur kunnáttan? „Hugmyndafræðin er fyrst og síðast að hafa gaman af þessu og brugga gæðabjór, líklega mun bjórinn höfða frekar til þroskaðri neytenda sem vilja fá sér góðan bjór með steikinni til að njóta en kannski síður þeirra sem eru á leið á útihátíð, þó svo að það sé auðvitað líka í lagi.

Fyrst og fremst held ég að fólk þurfi að hafa brennandi áhuga, því það er svosem ekkert flóknara að brugga bjór en baka brauð, en eins og við vitum þá getur maður bakað rosalega gott brauð án þess að vera bakari.

En til þess að gera þetta sem allra best erum við búinir að tryggja okkur ráðgjöf og leiðsögn frá Jimmy sem er formaður félags „Microbruggara“ á Fjóni. Hann er mikill áhugamaður og fræðimaður á þessu sviði og er sá sem selur okkur verksmiðjuna. Hann mun koma tvisvar sinnum austur til að halda námskeið fyrir okkar fólk og mögulega fleiri ef áhugi er fyrir hendi, auk þess sem hann verður okkar ráðgjafi í tvö ár eftir opnun.“

Þeir félagar áætla að framleiða fjórar tegundir af bjór til þess að byrja með. „Við byrjum á alebjór, sem er aðeins dekkri og þyngri en lagerbjór, en þó léttur og mjög ferskur. Við fáum fjórar uppskriftir með í kaupunum, af bjór sem allur hefur náð vinsældum hér í Danmörku og er seldur á veitingahúsum og hótelum hér úti, auk þess sem við munum bera bækur okkar saman við aðra bruggara. Planið er að vera ekki alltaf að brugga það sama, heldur prófa okkur áfram með hvað virkar og hvað ekki. Nánast er hægt að prófa sig áfram með hvað sem er, einhver bruggaði úr reyktu hvalseista, þannig að möguleikarnir eru óþrjótandi.“


Horfa á austfirskan markað í upphafi

Daði segir viðskiptaáætlunina kveða á um framleiðslu fyrir austfirskan markað til að byrja með.

„Austfirðingar og þeirra gestir er sá hópur sem við erum að horfa á í upphafi, en um leið og við erum komin í rútínu munum við fara í prufusölu í vínbúðunum og í framhaldi makaðssetja okkur um allt land. Við teygjum okkur bara eins langt og við getum, ef við komumst út fyrir landsteinana væri það frábært, en aðalmálið er fólkið í fjórðungnum, annað er bara bónus.“

Daði segir að íslenska bergvatnið skipta sköpum í framleiðslunni. „Það var nú eitt af því sem ráðgjafinn okkar talaði um, að íslensk bjórframleiðsla gæti ekki klikkað vegna gæða vatnsins. Hann sagði að í framhaldinu ættum við tvímælalaust að fara í viskíframleiðslu, en það eru nú engin plön uppi um það ennþá.

Sjálfur hef ég ekki mikið vit á bjór. Ég nýt þess að drekka hann en þar sem ég bý í Danmörku og hálfa vikuna á Fjóni eru hæg heimatökin. Hér eru gríðarlega margar svona verksmiðjur og tegundirnar óteljandi. Það hefur verið gaman að fylgjast með íslenskri bjórframleiðslu og maður fær bara valkvíða í fríhöfninni. Áður var það bara Kaldi sem stóð til boða sem tilbreyting frá stóru framleiðendunum en í dag er úr ótrúlega mörgum góðum bjórtegundum að velja.

Það verður gaman að vera ekki aðeins bjóráhugamaður, heldur einnig einhverskonar bjórsendiherra á Austurlandi.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar