Reyðfirðingur meðal þátttakenda í pólskum stefnumótaþætti

Ireneusz, 47 ára íbúi á Reyðarfirði, er einn þeirra þriggja sem keppa um hylli Agnieszką í tíundu þáttaröð pólsku útgáfunnar af stefnumótaþáttum þar sem einhleypt fólk úr sveitum leitar að maka.

Raunveruleikaþættir þar sem einhleypir bændur leita að ástinni, eins og Einbúinn í lagi Vilhjálms Vilhjálmssonar, hafa notið vinsælda víða um heim frá hinir fyrstu voru framleiddir í Belgíu og Noregi árið 2004. Þættirnir hafa að einhverju leyti þróast í takt við tímann og nú eru það líka konur úr sveit sem leita að hinum rétta.

Sýningar á tíundu þáttaröðinni í Póllandi, þar sem þættirnir kallast „Rolnik szuka żony“ eru nýhafnar. Þar er það hin 40 ára gamla Agnieszka sem leitar að lífsförunauti. Hún á hestabúgarð sem nær yfir 17 hektara lands og segist ekki geta hugsað sér að vera annars staðar. Til þessa hafi hún ekki fundið ástina en farið að hugsa hlutina upp á nýtt eftir að hafa verið einmana í Covid-faraldrinum.

Áður en tökur á þáttunum hófst var auglýst eftir áhugasömum piparsveinum til að keppa um hylli Agnieszku. Hún fékk bréf frá karlmönnum víða frá Póllandi. Hún valdi fyrst sex úr og fækkaði þeim svo niður í þrjá sem hún kynnist við leik og störf - einkum bústörf - í þáttunum.

Þeirra á meðal er Ireneusz sem samkvæmt kynningu er 47 ára gamall og búsettur á Reyðarfirði. Hann hefur unnið á Íslandi í fjögur ár og segist kunna vel við sig þar þótt hann sé tilbúinn að flytja aftur til Póllands finni hann ástina þar.

Líkt og Agnieszka segist Ireneusz hafa fundið fyrir einmanaleika. Hann hafi ekki farið að stefnumót lengi og hafi í raun verið hættur í makaleit en sé opinn fyrir öllu. Hann hefur áhuga á mótorhjólum og að teikna.

Hún lýsir honum sem þroskuðum manni sem viti hvað hann vilji og hvernig lífið gangi fyrir sig, sem sé allt jákvætt.

Mynd: TVP/Rolnik szuka zony

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.