Rímspillisár ruglaði austfirskar þorrablótsnefndir í ríminu

Dagsetning næsta bóndadags hefur vafist fyrir austfirskum þorrablótsnefndum. Aldagamlar reiknireglur ráða því að dagurinn er síðar en hann er vanalega. Ruglingur í fjölmörgum dagatölum reyndist nefndarfólki nærri dýrkeyptur.

Bóndadagur er allajafna á bilinu 19. – 25. janúar. Á því eru þó undantekningar. Á Vísindavef Háskóla Íslands er útskýrt að svokallað rímspillisár sé þegar gamlársdag beri upp laugardag árið á undan og næsta ár á eftir er hlaupár. Þannig helgast það að árið 2023 er rímspillisár.

Orðið rím, samanber að ruglast í ríminu, er útreikningur dagatals. Í gamla íslenska tímatalinu, misseristalinu sem byggðist á vikum, var dagatalið reiknað út með fingrunum. Slíkt kallast fingrarím.

Rímspillisárið verður til þegar sumarauka, viku, er bætt við misserisdagatalið á nokkurra ára fresti þannig það haldist í takti við árstíðirnar. Rímspillirinn stendur frá sumarauka fram að hlaupársdegi. Það þýðir að rímspillisárið ber aldrei upp á hlaupár. Alla jafna er það á 28 ára fresti en síðasta rímspillisár var 1995.

Búin að margathuga dagatalið


Allt þetta þýðir að það sem byggir á gamla tímatalinu, svo sem bóndadagurinn, ruglast í ríminu. Svo rækilegur er ruglingur að fjölmörg dagatöl voru með röngum bóndadegi árið 2024, sögðu hann 19. janúar. Á þessu hafa þorrablótsnefndirnar verið að átta sig á síðustu vikum.

„Þegar við vorum kosin í nefndina í fyrra þá litum við á dagatalið. Þá var bóndadagur 19. janúar. Við kíktum aftur í vor þegar nefndin kom fyrst saman og enn aftur þegar við byrjuðum að vinna nú í september,“ segir Eva Dís Pálmadóttir, annar formanna þorrablótsnefndar Egilsstaða.

„Síðan gerist það að einn úr nefndinni ætlar að skrá sig í frí frá vinnu. Þá kemur upp að bóndadagur sé alls ekki 19. janúar heldur 26. janúar. Hann fer síðan að spyrja annað nefndarfólk hvort það sé visst á dagsetningunni,“ segir Eva Dís. Hún segir ruglinginn ekki hafa valdið neinum teljandi vandræðum enda vinnan rétt að hefjast.

Gott að græða viku


Skóladagatal Sambands íslenskra sveitarfélaga var meðal þeirra dagatala sem voru röng. Tilkynnt er um leiðréttinguna á vef sambandsins þann 25. september síðastliðin eftir að „nýlega hafði verið vakin athygli“ á vitleysunni.

„Við vorum búin að sjá að bóndadagur væri 19. janúar. Okkur fannst þetta stuttur tími því undirbúningurinn fer ekki á fullt fyrr en í janúar. Við vorum samt að peppa nefndina áfram. Ég játa að mér var létt þegar ég komst að þessu,“ segir Sigrún Birna Björnsdóttir, formaður þorrablótsnefndar Reyðarfjarðar.

„Ólíkt öðrum þá var enginn búinn að gera neinar frekari ráðstafanir, svo sem panta skíðaferðir eftir blót. Það hefur að minnsta kosti enginn dregið úr nefndinni vegna þessa,“ segir hún.

Á 28 ára fresti


Blótið á Reyðarfirði að ári verður númer 101 í röðinni þar. Þorrablótsnefndin hefur aðgang að gerðabókum eldri nefnda og þar er bókað um þessi ár. „Það er magnað að sjá það,“ segir Sigrún Birna.

Hvorki Eva Dís né Sigrún segjast hafa heyrt af hugtakinu „rímspillisár“ fyrr en í nú september. „Mér finnst þetta ótrúlega fyndið orð. Þetta minnir mig á atriðið úr Fóstbræðrum þar sem verið er að kenna spilareglurnar,“ segir Sigrún.

Hefð er fyrir því á bæði Reyðarfirði og Egilsstöðum að halda blótin á bóndadag. Staðfest hefur verið þau verði 26. janúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.