Rithöfundalestin af stað í kvöld

Árleg rithöfundalest, hópur rithöfunda sem ferðast um Austurland til að kynna nýjar bækur sínar, fer af stað í kvöld og kemur við á fimm stöðum um helgina.

Höfundarnir í ár eru fjórir, þar af tveir uppaldir Austfirðingar. Það eru Jón Knútur Ásmundsson, ljóðskáld frá Norðfirði, sem nýverið gaf út ljóðabókina Slög. Hann fékk snemma á þessu ári viðurkenningar fyrir ljóð í samkeppni um Ljóðstaf Jóns úr Vör.

Hinn er Hrafnkell Lárusson úr breiðdal, nýdoktor í sagnfræði, sem gaf út bókina Lýðræði í mótun sem segir meðal annars frá austfirsku samfélagi í kringum aldamótin 1900.

Þá er í hópnum Rán Flygenring, sem kynnir sína nýjustu bók, Tjörnina. Hún kynnir líka bókina Álfa, sem kom út í fyrra. Hún hlaut í fyrra Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Eldgos. Rán er Austfirðingum að góðu kunn því hún hefur dvalist töluvert eystra, einkum á Borgarfirði, við listsköpun.

Brynja Hjálmsdóttir hefur hlotið verðlaun fyrir ljóðabækur sínar, meðal annars Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2022 og sama ár Hvatningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur. Það ár gaf út út bókina Þegar dagar aldrei dagar aldrei. Hún sendir í ár frá sér sína fyrstu skáldsögu, Friðsemd.

Rithöfundalestin á sér tæplega 30 ára sögu. Hún hófst sem samvinnuverkefni milli Vopnafjarðar og Seyðisfjarðar en bætti síðan við sig. Síðustu ár hefur austfirskum höfundum í henni fjölgað, enda eitt markmiða hennar frá upphafi að stofna til kynna milli höfunda af höfuðborginni og landsbyggðinni.

Að þessu sinni verður lesið upp á Kaffihúsinu 690 á Vopnafirði í kvöld, Tónspili í Neskaupstað og Tónspili í Neskaupstað á morgun. Á laugardag verður fyrst lesið upp í Löngubúð á Djúpavogi en síðar í Skaftfelli á Seyðisfirði. Ferðinni lýkur á Skriðuklaustri í Fljótsdal á sunnudag.

Viðburðirnir hefjast klukkan 20:00, nema 14:00 á Djúpavogi og 13:30 á Skriðuklaustri. Aðgangur er í öllum tilfellum ókeypis.

Brynja Hjálmsdóttir las í morgun upp fyrir nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar