![](/images/stories/news/2017/rullandi_snjobolti/rullandi_snjobolti_2017_0017_web.jpg)
Rúllandi snjóboltinn veitir okkur innsýn í listheim sem venjulega væri okkur ekki opinn
Sveitarstjóri Djúpavogshrepps segir alþjóðlegu sjónlistasýninguna Rúllandi snjóbolta, sem haldin er í gömlu Bræðslunni fjórða sumarið í röð, gefa staðnum gríðarlegt aðdráttarafl og opna íbúum staðarins nýjar leiðir.
„Sýningin skiptir skiptir okkur gríðarlega miklu máli og því meira máli eftir sem við höldum hana oftar. Hún gefur okkur tækifæri til að sjá inn í listheim sem að öllu venjulegu væri okkur ekki opinn og opnar augu okkur og huga fyrir því upp á hvað þessi heimur býður.“
Þetta segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi um alþjóðlegu listsýninguna. Á henni má finna verk eftir þekkta íslenska myndlistarmenn sem og alþjóðlega, meðal annars Marlene Dumas, eina þekktustu myndlistarkonu heims. Verk eftir hana seldist hjá bresku uppboðsfyrirtæki á þrjár milljónir punda, andvirði 420 milljóna króna árið 2008.
Gauti þakkar Sigurði Guðmundssyni, sýningarstjóra og einum helsta hvatamanni þess að sýningin er haldin á Djúpavogi, það hversu vel gangi að fá þekkta listamenn til að sýna.
„Hann hefur tengslanet innan þessa geira. Við búum líka svo vel að hafa Þór Vigfússon hér sem ber sýninguna uppi í heimabyggð.
Það verður líka auðveldara með hverju árinu að fá þessi stóru nöfn. Fólk veit af henni í listaheiminum og því er auðveldara að fá það til að koma. Það hefur jafnvel frumkvæði að því sjálft.“
Gauti segir sýninguna hafa mikið aðdráttarafl fyrir gesti og nefnir að erlendir gestir hafi gert sér sérstaka ferð til að vera viðstaddir opnun hennar.
„Við fengum tæplega 4000 manns á sýninguna í fyrra og það er töluvert um að fólk komi hér á sumrin bara til að sjá sýninguna.“
Sýningin hefur líka gefið Bræðslunni nýtt líf. Smíðað hefur verið sérstakt sýningarrými inn í hana sem vanalega hefur verið tekið niður eftir að sýningu lýkur. Það verður ekki gert nú. „Við ætlum að leyfa ljósunum og rýminu að standa til að geta nýtt það undir frekari sýningar.“
Sýningin stendur til 20. ágúst. Við opnun sýningarinnar síðasta laugardag framdi listamaðurinn Harald Jónsson gjörning sem fólst í að fá alla gestina í risastóran hvísluleik.