"Sá sem ekki fær skot hefur ekki gert neitt af sér á árinu"

Hefðin fyrir hjónaballi á Fáskrúðsfirði er orðin meira en 120 ára gömul en dansað verður í Skrúð annað kvöld. Hjónaböllunum svipar um margt til þorrablótanna annars staðar en yfirbragðið er aðeins annað og strangari reglur um hverjir geta mætt.

"Í lok hvers hjónaballs er kjörin 12 manna nefnd til að undirbúa ballið árið eftir. Aldursforseti nefndarinnar er formaður. Það er síðan nefndarinnar að ákveða með hvaða hætti hún skemmtir fólkinu yfir borðhaldi," segir Óðinn Magnason formaður nefndarinnar í ár.

"Hjón geta ekki lent saman í nefnd, það eru tíu ár þar til þú þarft næst að vera í nefnd og 60 ára og eldri hafa val um hvort þeir séu í pottinum sem valið er úr."

Skemmtihaldið er yfirleitt eins konar áramótaskaup bæjarins með leikþáttum og söng. "Sá sem ekki fær skot hefur yfirleitt ekki gert neitt af sér á árinu en það er legið yfir að finna sögur," segir Óðinn.

Hjónaballsveður

Hjónaböllin eru orðin ríflega 120 að tölu og hafa verið haldin í nokkrum húsum bæjarins, til dæmis Franska spítalanum í árdaga. Hefð er fyrir að vera með ballið í byrjun janúar sem kallar stundum á erfiðleika.

"Það var talað um hjónaballsveður sem var vindur, snjókoma og rafmagnsleysi. Það var mjög algengt að rafmagnslaust væri á borðhaldinu."

Þarft að vera giftur eða í sambúð

Nokkuð strangar reglur eru um hverjir megi mæta á hjónaböllin. "Þú þarft að vera giftur eða í sambúð. Ekklar og ekkjur eru velkomin en þeir sem skilja eru ekki lengur gjaldgengir," útskýrir Óðinn.

"Það kom einhvern tíman upp sú tillaga að opna hjónaballið meira. Um hana voru greidd atkvæði á ballinu og mig minnir að hún hafi verið felld með nánast öllum greiddum atkvæðum."

Þess er þó ekki krafist að hjón mæti saman á ballið. Komist makinn einhverra hluta vegna ekki, eða vill ekki koma, er hinum frjálst að mæta.

"Það er gott ef við náum 200 mans en oft koma ýmsir hlutir sem geta skert fjöldann hratt. Núna eru til dæmis tvö blakmót í gangi og svo er allt kapp á að koma uppsjávarskipinu út í upphafi loðnuvertíðar. Þetta leiðir til þess að annar fer ekki ef hinn helmingurinn er að heiman.

Það er ekki hægt að stoppa atvinnulífið þótt það sé hjónaball. Hins vegar er oft nægur fiskur til að halda uppi vinnu í frystihúsinu þannig skipin geta verið inni þennan dag."

Gestir úr Fjarðabyggð

Aðeins hefur hins vegar slaknað á kröfum um búsetu þeirra sem mæta. "Upphaflega var þetta bara fyrir okkur hér í Búðakauptúni en svo sameinuðumst við Stöðfirðingum í Austurbyggð, þá var þeim boðið að skrá sig og nú erum við Fjarðabyggð.

Við höfum ekki boðið öðrum í sveitarfélaginu sérstaklega að koma en þeim er ekki neitað um að skrá sig. Við fáum fólk frá Stöðvarfirði, Reyðarfirði og Eskifirði."

Ekki alltaf sami textinn á kvöldinu og lokarennslinu

Þegar Austurfrétt ræddi við Óðinn var hann á leið út í félagsheimilið Skrúð að leggja lokahönd á undirbúninginn. Þema er valið fyrir hvert ball og er salurinn skreyttur eftir því auk þess sem dagskráin ber keim af því. Í fyrra var þemað diskó en ekki verður greint frá þema ársins fyrr en á ballinu á morgun.

Seinni partinn er síðan lokarennsli á skemmtiatriðunum. "Við keyrum dagskrána eins og hún verður á morgun. Við erum hins vegar ekki Þjóðleikhúsið svo það er ekki sjálfgefið að textinn sem leikararnir fara með í dag verði sá sami í dag og á morgun."

Á borðhaldinu er boðið upp á 2-3 rétta máltíð og að því loknu er dansleikur. Hljómsveit Jóns Arngrímssonar spilar á morgun en Jón hefur verið nefndunum innan handar síðustu ár. "Hann er búinn að vera með okkur í nokkur ár og vinnur vel með hópnum."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar