![](/images/stories/news/2016/smidjuhatid_0052_web.jpg)
Smiðjuhátíðin dregur marga forvitna til sín
Von er á þúsundum gesta á svæði Tækniminjasafns Austurlands þar sem Smiðjuhátíð fer fram um helgina. Námskeið í eldsmíði er það vinsælasta á hátíðinni.
„Það selst upp í hana um leið og er opnað. Beate Stormo er Íslands- og Norðurlandameistari í greininni. Hún er góður kennari, góður smiður, kann til verka og er skemmtielg líka,“ segir Pétur Kristjánsson, safnstjóri.
Á hátíðinni er lögð áhersla á gamalt handverk sem mörgum er gleymt í dag. Af öðrum námskeiðum má nefna tálgun, bókband, hnífasmíði og ljósmyndun þar sem framkallað er með aðstoð sólarinnar, en það er hið nýjasta í flórunni.
Um þrjátíu manns eru skráðir á námskeiðin. „Þetta eru ekki margmennisnámskeið. Við fáum alls konar fólk af öllu landinu. Sumir eru búnir að koma oft áður. Hátíðin er ekki mikið auglýst, við viljum ekki að hún verði of stór.“
Utan námskeiðanna er lambakjötsveisla á kvöldin og tónlistaratriði. Frá föstudegi til sunnudags dregur hátíðin að sér fjölda gesta. „Við prófuðum að telja í fyrra hversu margir hefðu farið í gegn yfir helgina og það var á þriðja þúsund. Margir koma því þeir vita af hátíðinni og við fáum alltaf mikið af krökkum.“
Pétur segist finna talsverðan áhuga á gamla handverkinu. „Já, maður finnur það alla jafna. Það geta ekki allir komið á þessum tíma enda erum við líka með námskeið á veturna.“