
Þeir sem fá bakteríuna hlaupa allt árið
„Það virðist ekki vera neitt lát á vinsældum þess að hlaupa,“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, hlaupahéri á Egilsstöðum, en hin vinsæla hlaupasyrpa Héranna er í fullum gangi um þessar mundir. Elsa Guðný er í yfirheyrslu vikunnar.
Fjórða hlaup í vetrarsyrpu Héranna á Egilsstöðum verður á morgun, en syrpan samanstendur af sex 10 km hlaupum sem hlaupin eru síðasta laugardag í mánuði frá október og fram í mars. Keppendur safna stigum eftir árangri og stigahæstu einstaklingar eru verðlaunaðir í lok vetrar. Öllum er velkomið að koma inn í syrpuna á hvaða tíma hennar sem er.
„Þetta byrjaði fyrir tíu árum og hefur bara vaxið og dafnað síðan. Við erum nokkur sem höldum utan um hlaupin, sjáum um að auglýsa, tökum tíma og söfnum vinningum, en dregið um veglega vinninga eftir hvert hlaup. Við höfum notið velvildar fyrirtækja og stofnana á svæðinu sem hafa verið dugleg að styrkja okkur og fyrir það erum við mjög þakklát. Þátttakan hefur eiginlega alltaf verið góð, bæði er ákveðinn kjarni sem tekur næstum alltaf þátt og svo bætast alltaf einhverjir nýir hlauparar við. Sumir virðast vera svolítið hræddir við að taka þátt, halda að þetta séu bara fyrir einhverja afrekshlaupara en það er alls ekki þannig, það geta allir verið með og það er alltaf jafn gaman að sjá ný andlit og verða vitni af gleðinni sem fylgir því að klára 10 km keppnishlaup í fyrsta sinn,“ segir Elsa Guðný.
Er hlaupaæðið alltaf vaxandi? „Já, flestir sem fá hlaupabakteríuna hlaupa allt árið. Sumir fara inn á hlaupabretti á veturna en það er stór hópur sem hleypur úti allt árið. Það getur verið erfitt að fara út í myrkri og snjó en þetta er bara spurning um að klæða sig eftir aðstæðum.“
Hvað er það við hlaup sem er svona heillandi? „Ferska loftið, hreyfingin, að hlaupa í skemmtilegum félagsskap eða bara einn með sjálfum sér, það getur verið mjög góð hugleiðsla.“
Hvaða ráð hefur Elsa Guðný til þeirra sem langar að byrja að hlaupa en hafa sig ekki af stað? „Byrja smátt. Það hleypur enginn 10 km í fyrstu ferð. Byrja á að ganga bara og auka svo hraðann og vegalengdina smátt og smátt. Þegar maður er kominn aðeins af stað er fínt að setja sér ákveðið markmið, t.d. þátttöku í vetrarhlaupi og vinna markvisst að því að ná því. Það er dásamleg tilfinning að brjóta múr eins og 10 kílómetrana.“
Fullt nafn: Elsa Guðný Björgvinsdóttir.
Aldur: 34 ára.
Starf: Safnstjóri Minjasafns Austurlands.
Maki: Kjartan Róbertsson.
Börn: Jóhann Smári, Sigrún Heiða og stjúpdóttirin Linda Elín.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil? Örugglega bóndi.
Hver er þinn helsti kostur? Samviskusemi.
Hver er þinn helsti ókostur? Frestunarárátta.
Drauma-hlaupaleið á Íslandi? Dyrfjallahlaupið, ég tók ekki þátt í fyrra en mig dreymir um gera það einhvern tíma.
Drauma-hlaupaleið í heiminum? Einhvers staðar þar sem landið er flatt og veðrið gott.
Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta stoppað tímann.
Besta bók sem þú hefur lesið? Úff erfið spurning, ég get eiginlega ekki svarað því. En bestu bækur sem ég hef lesið síðustu tvo mánuði eru Millilending eftir Jónas Reyni og Saga Ástu eftir Jón Kalman.
Settir þú þér áramótaheit og ef svo er, hvað er það? Ég ætla að einfalda líf mitt.
Mesta undur veraldar? Náttúran.
Hvað er í töskunni þinni? Snyrtiveski, peningaveski, vettlingar, tyggjó.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Hallgerður Langbrók.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika.
Slæmur ávani? Hanga í símanum í tilgangsleysi.
Er eitthvað sem þú myndir vilja gera meira af í daglegu lífi? Hreyfa mig.
Bestu hlaupaskórnir? Acics Nimbus hafa verið mínir félagar undanfarin ár.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Fólkið mitt.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ég myndi auka skilning og umburðarlyndi jarðarbúa. Held að heimurinn yrði töluvert betri við það.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Læra á skíði, fara í fallhlífastökk og upplifa LEGO-land með LEGO-sjúkum syni mínum.
Hvað ætlar þú að gera um helgina? Ég ætla að meðal annars að fara á skíðanámskeið í Stafdal.
Af hverju að byrja að hlaupa? Ódýr líkamsrækt sem hægt er að stunda hvar og hvenær sem er.