„Þessir listamenn eru allir í uppáhaldi“

„Þetta er algerlega það sem við lögðum upp með þegar við fluttum í Berufjörðinn og komum okkur fyrir á Karlsstöðum. Við rákum Havarí áður í Austurstrætinu í Reykjavík þar sem við vorum alltaf með vikulega tónleika og það var alltaf meiningin að flytja þá hugmyndafræði með okkur austur,“ segir Berglind Häsler á Karlsstöðum um tónleikasumarið í Havarí.



Þau Berglind og Svavar Pétur Eysteinsson ætla að standa fyrir tónleikaröð í veitinga- og viðburðarýminu Havarí í sumar í samvinnu við Rás 2. Fjörið hefst laugardaginn 3. júní en þá opnar Sara Riel myndlistasýningu sína Marvera í Havarí og President Bongó, fyrrum liðsmaður Gus Gus, verður með tónleika um kvöldið. Stórsveitin Moses Hightower lokar sumrinu þremur mánuðum síðar með tónleikum 2. september. Meðal annarra listamanna sem troða upp í Havarí í sumar má nefna KK, Valdimar, Láru Rúnars, Jónas Sig, Lay Low og Mugison.

„Við erum rosalega spennt að taka á móti öllu þessu fólki, bæði listafólki og gestum og gangandi. Við erum mjög stolt af þessari dagskrá og ánægð með að þetta frábæra fólk vilji taka þátt í þessu ævintýri með okkur,“ segir Berglind.

„Þessir listamenn eru allir í uppáhaldi hjá okkur, það er bara svo einfalt. Einhverjir þeirra eru góðir vinir okkar og aðrir verða það eftir þetta. Það liggur auðvitað hellings vinna að baki, Svavar er búinn að liggja sveittur í símanum til þess að reyna að pússla öllu saman. Við þekkjum það hins vegar af eigin reynslu úr tónlistarbransanum að mörgum finnst gaman að fara út á land og spila á sumrin svo það kom okkur ekkert á óvart að þessir meistarar séu viljugir að koma. Þetta snerist fyrst og fremst um að láta tímasetningar ganga upp.“



Hostel í gamla fjárhúsinu

Berglind segist búast við því að tónleikagestir taki þetta margir alla leið og gisti á staðnum eftir tónleika. „Já, það verður tjaldað á túninu, grillað og farið í sjósund. Það gerist alltaf einhver galdur þegar fólk kemur saman á svona stað. Þegar líður á sumarið getum við svo boðið upp á gistingu en við vinnum að því hörðum höndum þessa dagana að byggja Havarí Hostel í gamla fjárhúsinu. Það verður góð viðbót við viðburðarýmið og býður upp á endalausa möguleika.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar