Þór Vigfússon handhafi Gerðarverðlaunanna

Þór Vigfússon, myndlistarmaður á Djúpavogi, hlaut nýverið Gerðarverðlaunin sem afhent eru árlega til stuðnings höggmyndalist hérlendis til framúrskarandi myndlistarmanns sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk.

Verðlaunin eru kennd við Gerði Helgadóttur, myndhöggvara og afhent í Listasafni Kópavogs, sem einnig heitir eftir henni. Þau voru í fyrsta sinn afhent árið 2020 og er Þór því annar verðlaunahafinn.

Hann hlýtur verðlaunin fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til höggmynda- og rýmislistar. Í umsögn segir að Þór noti tilbúin iðnaðarefni til að skapa öflug myndverk, með litum, áferð og speglun.

Verkin séu einföld, gerð úr gleri, plexigleri, speglum og formica með einlitum flötum, sem raðast þannig saman að mörkin á milli flatar og þrívíddar séu oft óljós og breytast eftir afstöðu áhorfandans. Rými gegni mikilvægu hlutverki í verkum Þórs og hann búi oft til myndskreytingar eða myndverk inn í byggingar.

Á 45 ára ferli sínum hafi Þór hefur kannað mörk flatar og þrívíddar og samtal myndlistar við umhverfi sitt. Verk hans eru skúlptúrar, málverk og veggskúlptúrar þar sem misstórir fletirnir og áferð efnisins tala sig inn í rýmið og hafa dáleiðandi áhrif með því að endurspegla áhorfandann og umhverfi hans.

Þór Vigfússon er fæddur í Reykjavík árið 1954 og nam myndlist við MHÍ og síðar í Hollandi í Strichting De Vrije Academie í Den Haag. Hann hefur sýnt víða bæði hérlendis og erlendis þ.á m. Quint Gallery í San Diego og The Chinese European Art Center, Xiamen City í Kína.

Gerður Helgadóttir tók fyrst íslenskra kvenna forystu í höggmyndalist og var brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist hérlendis. Hún fæddist árið 1928 austur á Norðfirði en fluttist níu ára gömul suður til Reykjvíkur.

Mynd: Gerðarsafn


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.