Tímamót sem ekki urðu

Sýslumaðurinn á Eskifirði hefur fengið beiðnir um nauðungarsölu sextán húsgrunna á Fáskrúðsfirði. Þegar framkvæmdir hófust í við þá var það sagt marka tímamót í byggingasögu bæjarins.

 

ImageBeiðnirnar eru auglýstar í Lögbirtingablaðinu. Um er að ræða Hlíðargötu 68, 70, 72, 74, 76, 78, 80, 82 og Skólaveg 98, 100, 102, 104, 106, 108, 110 og 112. Lóðirnar eru skráðar á Fjárfestingarfélag Austurbyggðar ehf. en gerðarbeiðendur eru Tryggingamiðstöðin og Fjarðabyggð. Lýstar kröfur í eignirnar nema samanlagt tæpum tíu milljónum króna.

Félagið fékk árið 2006 úthlutað 26 lóðum fyrir allt að 50 íbúðir í einbýlis-, par og raðhúsum. Í fyrsta áfanga átti að byggja raðhúsin sextán sem nú eru ófædd á leið á nauðungaruppboð. Þau áttu að vera tilbúin að utan í lok árs 2006 og fullbúin vorið 2007. Í nóvember 2007 var sótt um endurnýjun á bygginarleyfi fyrir raðhúsunum við Hlíðargötu.
Í frétt á vef Fjarðabyggðar frá því að fyrsta skóflustungan var tekin að húsunum sumarið 2006 var viðburðurinn sagður marka „tímamót í byggingasögu Fáskrúðsfjarðar. Þegar þessum framkvæmdum verður lokið lætur nærri að íbúðum á Fáskrúðsfirði fjölgi um 20%.“ Þar segir einnig að Leigufélagið Híbýli ehf. hafi keypt hluta raðhúsanna en hluti þeirra verði seldur á frjálsum markaði.

Fleiri fasteignaverktakar sem störfuðu á Austurlandi eru í vandræðum. Eikarsmiðjan ehf.,  sem meðal annars byggði við Stekkjargrund, Stekkjarbrekku og Stekkjarholt á Reyðarfirði, hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta. Félagið var stofnað árið 2002. Nafn fyrirtækisins kemur fyrir í grein um nýbyggingar á Reyðarfirði í Fasteignablaði Morgunblaðsins í janúar 2005. Fyrirsögnin er „Erfitt fyrir einstaklinga að fá stakar lóðir vegna stórtækra verktaka“ og sagt að svo líflegt sé í húsbyggingum á Reyðarfirði að húsin spretti upp eins og gorkúlur. „Hús hér ganga kaupum og sölum, heimafólk er að skipta um húsnæði og aðfluttir að flytja inn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar