Tímamót sem ekki urðu
Sýslumaðurinn á Eskifirði hefur fengið beiðnir um nauðungarsölu sextán húsgrunna á Fáskrúðsfirði. Þegar framkvæmdir hófust í við þá var það sagt marka tímamót í byggingasögu bæjarins.
Beiðnirnar eru auglýstar í Lögbirtingablaðinu. Um er að ræða Hlíðargötu 68, 70, 72, 74, 76, 78, 80, 82 og Skólaveg 98, 100, 102, 104, 106, 108, 110 og 112. Lóðirnar eru skráðar á Fjárfestingarfélag Austurbyggðar ehf. en gerðarbeiðendur eru Tryggingamiðstöðin og Fjarðabyggð. Lýstar kröfur í eignirnar nema samanlagt tæpum tíu milljónum króna.
Félagið fékk árið 2006 úthlutað 26 lóðum fyrir allt að 50 íbúðir í einbýlis-, par og raðhúsum. Í fyrsta áfanga átti að byggja raðhúsin sextán sem nú eru ófædd á leið á nauðungaruppboð. Þau áttu að vera tilbúin að utan í lok árs 2006 og fullbúin vorið 2007. Í nóvember 2007 var sótt um endurnýjun á bygginarleyfi fyrir raðhúsunum við Hlíðargötu.
Í frétt á vef Fjarðabyggðar frá því að fyrsta skóflustungan var tekin að húsunum sumarið 2006 var viðburðurinn sagður marka „tímamót í byggingasögu Fáskrúðsfjarðar. Þegar þessum framkvæmdum verður lokið lætur nærri að íbúðum á Fáskrúðsfirði fjölgi um 20%.“ Þar segir einnig að Leigufélagið Híbýli ehf. hafi keypt hluta raðhúsanna en hluti þeirra verði seldur á frjálsum markaði.
Fleiri fasteignaverktakar sem störfuðu á Austurlandi eru í vandræðum. Eikarsmiðjan ehf., sem meðal annars byggði við Stekkjargrund, Stekkjarbrekku og Stekkjarholt á Reyðarfirði, hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta. Félagið var stofnað árið 2002. Nafn fyrirtækisins kemur fyrir í grein um nýbyggingar á Reyðarfirði í Fasteignablaði Morgunblaðsins í janúar 2005. Fyrirsögnin er „Erfitt fyrir einstaklinga að fá stakar lóðir vegna stórtækra verktaka“ og sagt að svo líflegt sé í húsbyggingum á Reyðarfirði að húsin spretti upp eins og gorkúlur. „Hús hér ganga kaupum og sölum, heimafólk er að skipta um húsnæði og aðfluttir að flytja inn.“