![](/images/stories/news/2017/falkaorda_juni2017_web.jpg)
Tveir Austfirðingar í hópi fálkaorðuhafa
Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra og Tryggvi Ólafsson, myndlistarmaður, voru í hópi þeirra fjórtán sem forseti Íslands sæmdi nýverið heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.
Jón fær orðuna fyrir störf í opinbera þágu. Hann er fæddur í Skagafirði árið 1942 en fluttist austur í Egilsstaði 1963 þar sem hann tók við stöðu verslunarstjóra hjá Kaupfélagi Héraðsbúa.
Jón starfaði hjá KHB og vikublaðinu Austra þar til settist á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 1984. Þar var hann til ársins 2007, þarf af sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2001-2006.
Tryggvi Ólafsson er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna en hann skipaði sér snemma á ferlinum í framvarðarsveit íslenskra myndlistarmanna með sérstæðum og auðþekkjanlegum stíl.
Tryggvi er fæddur árið 1940 í Neskaupstað. Hann hóf ungur að mála og nam myndlist bæði hér á landi og í Kaupmannahöfn, við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og Konunglegu listakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66.
Lengst af starfsævinnar var Tryggvi búsettur í Kaupmannahöfn en hann býr í Reykjavík nú, líkt og Jón.
Árið 2001 opnaði málverkasafn hans í Neskaupstað í Kaupfélagshúsinu, sem hýsir nú Hótel Hildibrand. Safnið hefur verið á nýverandi stað í Safnahúsinu í Neskaupstað frá 2007.