„Við lofum stemmara og skemmtilegu andrúmslofti“

„Ég þurfti nú bara að komast í skeggsnyrtingu og fékk því þessa hugmynd,“ segir Guðmundur Bj. Hafþórsson á Egilsstöðum, en Rakarastofa Akureyrar verður með „Pop-up“ rakarastofu í Stjörnuhári á Egilsstöðum næstkomandi laugardag.



„Ég hafði farið til þeirra fyrir norðan en þekkti engan þeirra persónulega. Ákvað samt að senda þeim línu á Facebook og þeir tóku vel í hugmyndina og eru á leiðinni austur á laugardaginn,“ segir Guðmundur.

Svo skemmtilega vill til að Herrakvöld Hattar ber upp á sama dag. „Já, það er samt alger tilviljun, en þeir buðu upp á nokkrar dagsetningar og þegar við áttuðum okkur á því að Herrakvöldið væri ein þeirra, þá var það engin spurning.“

Guðmundur segir að nú verði skeggjaðir menn að fara að taka við sér. „Það eru aðeins tíu búnir að skrá sig en það væri frábært að fá þrjátíu, ég er hræddur um að þetta falli um sjálft sig ef við náum ekki tuttugu. Þannig að ég bara hvet alla mína skeggjuðu vini að hringja og panta tíma, en það verður gaman að hita upp fyrir Herrakvöldið með skeggsnyrtingu.“



Hugsanlegt framhald ef vel gengur

Geir Sigurðsson, rakari og eigandi Rakarastofu Akureyrar segir að þeir félagar séu spenntir fyrir ferðalaginu, en þeir verða fjórir að störfum á laugardaginn.

„Við hugsum þetta líka sem prufuferð, kannski getum við komið reglulega austur ef viðtökurnar eru góðar. Það er gott fyrir skeggjaða karlmenn að fara annað slagið á stofu og fá snyrtingu sem þeir geta svo haldið við sjálfir. Einnig er algengt að karlmenn komi til þess að fá ráðleggirnar hvernig eigi að halda skeggi fallegu þegar verið er að safna og fleira,“ segir Geir, en einnig verða til sölu vörur fyrir skegg sem og aðrar snyrtivörur fyrir karlmenn.

„Það er alveg tilvalið að hefja laugardagsgleðina hjá okkur og halda henni svo áfram á Herrakvöldinu. Við lofum stemmara og skemmtilegu andrúmslofti á stofunni.“

Tímapantanir eru í síma 462-6900, en hér er Facebooksíða stofunnar. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar