
„Viljum að stelpur séu frekar, hafi hátt og skapi sér pláss“
„Við ætlum að leyfa okkur að einblína á stelpur að þessu sinni en vonandi vinnum við með aðra hópa í framhaldinu,“ segir Kristín Atladóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, en í febrúar verður fyrsta námskeið í námskeiðaröðinni Stelpur skapa í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.
Námskeiðaröðin Stelpur skapa fer af stað í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í febrúar, en áætlað er að í það minnsta fjögur námskeið verði í ár.
Það fyrsta nefnist Stelpur skjóta, en það er helgarnámskeið í kvikmyndagerð. Einnig eru námskeiðin Stelpur rokka, Stelpur mynd og Stelpur rappa á áætlun í ár.
„Um er að ræða tveggja til þriggja daga námskeið fyrir ungar stelpur, til dæmis verður fyrsta námskeiðið, Stelpur skjóta, fyrir stelpur á aldrinum 13-16 ára, en aldurstakmark verður aðeins breytilegt og auglýst fyrir hvert námskeið. Þetta verða alvöru námskeið þar sem fagfólk í hverri grein kemur og kennir stelpunum,“ segir Kristín.
En af hverju bara stelpur? „Við stefnum að því að vinna með aðra hópa í framhaldinu, en við finnum ákveðna þörf með þennan hóp, ungar stelpur og þá krakka sem taka sér ekki pláss. Stelpur eru allt of gjarnar á að setjast bara í afturstætið. Við viljum að stelpur læri að vera frekar, hafa hátt og skapa sér pláss.“