Meðal efnis í nýjum Austurglugga eru viðtöl við Norðfirðingana Hákon Guðröðarson og Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, sem bæði eru ung og til alls vís í austfirsku athafna- og menningarlífi. Nýjar áherslur Markaðsstofu Austurlands fyrir ferðaþjónustuna eru kynntar, fjallað er um afrek fjallagarps sem kleif Aconcagua nýlega og Halldóra Tómasdóttir, staðarhaldari að Skriðuklaustri ritar samfélagsspegil. Fréttir og matgæðingur eru að sjálfsögðu á sínum stað. Skemmtilegur og litríkur Austurgluggi líkt og í hverri viku.
Skrifað hefur verið undir samninga um sérstakt umferðareftirlit og sjálfvirkt hraðaeftirlit milli Ríkislögreglustjóra annars vegar og hins vegar Vegagerðarinnar og Umferðarstofu fyrir hönd samgönguráðuneytis. Samningarnir gilda í tvö ár og eru hluti af umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Framlag til umferðaröryggisáætlunar í ár verður alls 367 milljónir króna.
Kontrabassa- og látbragðsleikarinn Dean Ferrell verður með tónleika í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á morgun, 12. mars. Tónleikarnir eru styrktir af FÍH og FÍT. Ferrell hefur getið sér orð víða um lönd fyrir óvenjulega og bráðskemmtilega tónleika og kvöldskemmtanir, þar sem hann nálgast sígilda tónlist og bókmenntir með afar sérstæðum og oft bráðfyndnum hætti án þess að slá nokkurn tíma af listrænum kröfum.
Heitt vatn sprautaðist upp úr 300 metra djúpri borholu við tjaldstæðið í Skaftafelli í fyrrinótt, að því er fram kemur í Morgunblaðinu. Skaftafell hefur fram til þessa flokkast sem kalt svæði í jarðfræðilegum skilningi, en áður höfðu verið boraðar tvær holur niður á 200 metra dýpi sem ekkert gáfu. Vatnajökulsþjóðgarður stóð að boruninni ásamt sveitarfélaginu Höfn í Hornafirði sem styrkti hana sérstaklega, en Jarðboranir sáu um framkvæmd verksins.
Fiskiskipið Skinney SF, sem er á leið frá Taiwan til Hornafjarðar, mun næstu sólarhringa sigla í herskipavernd meðfram ströndum Sómalíu, þar sem sjóræningjar hafa herjað á skip síðustu misserin.
Kjörstjórn VG hefur tekið ákvörðun um að birta atkvæðatölur 8 efstu í
forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðausturkjördæmi og segir í tilkynningu frá kjörstjórninni að glögglega megi sjá af tölunum að kosningin var nokkuð afgerandi í amk 3 efstu sætin. Sjá nánar á www.vg.is
Björgunarsveitarmenn frá Seyðisfirði og Egilsstöðum eru á Fjarðarheiði við að aðstoða vegfarendur, en þar er nú vont veður. Í morgun var samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar ófært og óveður á Fjarðarheiði, einnig þungfært og óveður á Möðrudalsöræfum og þar ekkert ferðaveður. Snjóþekja og skafrenningur er á Fagradal og Oddskarði. Snjóþekja og snjókoma er víða með ströndinni.Á Suðausturlandi eru vegir víða auðir. Þó er snjóþekja og skafrenningur frá Höfn að Kvískeri. Veðurspá gerir ráð fyrir austan 13-20 m/s og slyddu eða snjókomu norðan- og austan til fram eftir degi, en annars mun hægari austlægri átt og skúrum eða slydduéljum. Hiti víða 0 til 5 stig. Snýst í vaxandi norðaustanátt með éljum í kvöld, fyrst um landið vestanvert.