Allar fréttir
Fjarskiptasjóður og Síminn undirrita samning um háhraðanet til allra landsmanna
Fjarskiptasjóður og Síminn undirrituðu í dag samning um uppbyggingu háhraðanets um allt land. Með samningum er öllum landsmönnum tryggt háhraðanet fyrir árslok 2010. Um er að ræða tæplega 1800 heimili og verða þau fyrstu tengd innan mánaðar.
Fá þrjú hundruð milljónir í skuldabréfaútboði
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur ákveðið að taka tilboði um skuldabréf að andvirði þrjú hundruð milljónum króna á 6,6% vöxtum. Er þetta gert til að mæta fjármögnun verkefna á vegum sveitarfélagsins næstu mánuði, en allt í allt mun þurfa um einn og hálfan milljarð króna til að ljúka áætluðum verkefnum á árinu. Þar á meðal er viðbygging við Grunnskólann á Egilsstöðum. Reiknað er með að þrjú hundruð milljónirnar fleyti verkefnum fram til vors en sveitarfélagið mun samhliða leita fleiri fjármögnunarleiða.
Nýr Austurgluggi kominn út
Í nýjum Austurglugga kennir margra grasa að vanda. Birtur er merkur draumur eins síðasta íbúa Vaðlavíkur, sem virðist segja til um þá brotsjói sem íslenska þjóðarskútan hefur fengið á sig undanfarna mánuði og hugsanlega lendingu. Í opnu er fjallað um glæsileg skíðasvæði Austfirðinga og m.a. umfjallanir um íbúafjölgun í fjórðungnum og útræði frá strandjörðum. Matgæðingur vikunnar deilir með okkur galdrinum við að matbúa svartfugl þannig að hann verði ein helsta skrautfjöður kokksins.
Austurglugginn fæst á betri blaðsölustöðum.
Höttur á barmi falls
Kraftaverk þarf til að körfuknattleikslið Hattar falli ekki úr 1. deild
í vor. Liðið tapaði báðum leikjunum í suðurferð sinni um seinustu helgi.
Gleði og nepja öskudagsins
Þrátt fyrir snjó og garra þustu austfirsk börn og unglingar um götur bæja fjórðungsins í dag og sungu hástöfum allskyns söngva í fyrirtækjum og stofnunum, víðast við góðar móttökur. Að vanda voru þau leyst út með gjöfum eins og sælgæti, ávöxtum, drykkjum eða smáhlutum. Ætla má að kuldaboli hafi klipið í litlar tær og nefbrodda en eins og ungviðinu er tamt er slíkt ekki látið koma í veg fyrir ætlunarverk dagsins.
Þessi kríli heimsóttu Gistihúsið Egilsstöðum í dag, sungu þar Gamla Nóa og fengu hrós og góðgæti að launum.
Sýnir portrett af félögum í Ungblind
Björn M. Sigurjónsson portrettlistamaður sýnir níu andlitsmyndir af félögum í Ungblind á efri hæð Sláturhússins á Egilsstöðum 7. mars næstkomandi. Ungblind er félagsskapur blindra og sjónskertra ungmenna.