Ferðakostnaður hjá meistaraflokki karla í Fjarðabyggð í knattspyrnu var rúmar 5,4 milljónir árið 2008, vegna þátttöku í bikarkeppnum og Íslandsmóti KSÍ. Sambærilegur kostnaður flestra annarra liða í þremur efstu deildum karla nær ekki einni milljón.
Maður slasaðist í andliti í gærmorgun við vinnubúðir skammt frá Fljótsdalsstöð Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Virðist hann hafa fallið fram fyrir sig í hálku á hraungrýti og var eftir skoðun á heilsugæslunni á Egilsstöðum hugsanlega talinn kinnbeins- og kjálkabrotinn. Ekki reyndist unnt að flytja manninn norður til frekari aðhlynningar og rannsóknar á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í gær, þar sem hvorki var flogið né akfært vegna veðurs. Úr því rættist hins vegar í morgun.
Perla Kolka, tónlistarþerapisti í Neskaupstað, heldur kynningu á tónlistarþerapíu og verkefninu Tónlistarmeðferð í Nesskóla, í grunnskólanum í kvöld. Foreldrafélag Nesskóla stendur að kynningunni, en verkefnið var skömmu fyrir áramót styrkt myndarlega af Menningar- og styrktarsjóði Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað.
Rúmlega fjörutíu stig Bayo Arigbon dugðu ekki körfuknattleiksliði
Hattar sem tapaði fyrir Hrunamönnum 103-90 um seinustu helgi. Liðið er
í bullandi fallbaráttu.
Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað gaf í fyrrakvöld rúmar sex milljónir króna til uppbyggingar æfingasvæðis við klúbbhús Golfklúbbs Norðfjarðar. Freysteinn Bjarnason, framkvæmdastjóri SÚN, afhenti gjöfina á aðalfundi klúbbsins.
Íslenska ríkið og Landsvirkjun hafa í Héraðsdómi Austurlands verið sýknuð af öllum kröfum eigenda jarðanna Arnórsstaðaparts, Arnórsstaða I og II á Jökuldal. Vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar tilheyra báðum jörðum. Stefán Ólason, Merki á Jökuldal, stefni ríkinu og Landsvirkjun vegna Arnórsstaðaparts, en Þorsteinn Snædal og Guðrún Ragna Einarsdóttir, Skjöldólfsstöðum á Jökuldal vegna Arnórsstaða I og II.
Vegagerðin varar við því að flughálka sé nú á Sandvíkurheiði, Hárekstaðaleið og víðar. Ófært er um Fjarðarheiði vegna óveðurs, þæfingsfærð um Oddsskarð, Vopnafjarðarheiði, á Möðrudalsöræfum og krapasnjór er á Fagradal. Mikil hálka er á flestum leiðum.
Grunnskólinn á Egilsstöðum og Eiðum hefur aflýst skóla hjá 1.-5. bekk.