Safnið Fransmenn á Íslandi á Fáskrúðsfirði fékk á dögunum flökunarhnífa sömu gerðar og notaðir voru af frönskum skútusjómönnum hér við land á árum áður. Það var Jean Le Tellier sem er mikill áhugamaður um Ísland og gefur út fréttabréf á frönsku um Ísland, Courrier D´Islande, sem færði safninu þessa einstöku gjöf.
Höttur og Grótta gerðu 1-1 jafntefli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Fjarðabyggð gerði markalaust jafntefli við KA á Akureyri í 2. deild. Í þriðju deild vann Einherji Draupni 1-3 á Akureyri en Huginn tapaði 1-5 fyrir Völsungi á Seyðisfirði.
Steve Coppell, sem á dögunum ákvað að hætta störfum sem knattspyrnustjóri enska 1. deildar liðsins Reading, hældi Stöðfirðingnum Ívari Ingimarssyni í hástert í viðtali við Reading Evening Post í gær. Hann segir m.a. að kaupin á Ívari séu þau bestu sem hann gerði í þau fimm og hálft ár sem hann var við stjórnvölinn hjá félaginu.
Á borgarfjordureystri.is er greint frá fyrstu útgerðinni sem farið hafi á hvolf vegna yfirvofandi fyrningarleiðar í sjávarútvegi þótt áætlanir stjórnvalda séu ekki enn komnar til framkvæmda. Vefurinn birtir myndir af bát Bergbjarnar og Móra Group ehf. á hvolfi – enda ætla margir að slíkt verði örlög útgerða gangi fyrirætlanirnar eftir.
Mikil stemning var á höfninni í Neskaupstað í gær þegar flaggskipið Margrét EA 710 kom inn með 1100 tonn af síld eftir tæplega sólarhrings veiðar á Drekasvæðinu. Aflinn fékkst í tveimur holum. Veðrið var sæmilegt á miðunum, en áhöfnin talaði um að lítið yrði vart við sumarkomu þar úti enn sem komið væri. Menn voru brattir og ánægðir með fenginn. Síldin fer öll til manneldis og verður væntanlega búið að landa henni í kvöld. Skipið fer aftur á Drekasvæðið að lokinni löndun.
Slökkvilið var kallað að landskika við afleggjarann að Miðhúsum við Egilsstaði seint í fyrradag, en þar kraumaði eldur í móanum. Logn var og því breiddist eldurinn ekki út að ráði. Talið er víst að einhver hafi hent logandi vindlingi í gróðurinn og þar sem mjög þurrt hafði verið dagana á undan, leiddi það til íkveikju. Slökkviliðið slökkti eldinn á stuttum tíma og skikinn sem brann er ekki stór. Þarna hefði þó getað farið verr, því skógræktarsvæði liggja að skikanum. Aldrei verður nógsamlega brýnt fyrir fólki að fara varlega með eld og hvorki kasta logandi vindlingum frá sér né skilja eftir grill með lifandi kolum í náttúrunni.