Fyrri úrslitaleikurinn um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna milli Þróttar og HK fór fram í gærkvöld. Þróttur Nes tapaði leiknum 1 - 3. Mikil barátta var í hrinunum fjórum og vann HK þrjár þeirra; 26-24, 25-15, 25-17, en Þróttur Nes vann þriðju hrinu 25-19.
Seinni leikur liðanna verður í Neskaupstað annað kvöld; föstudagskvöld kl. 20. Blakdeild Þróttar og Austurglugginn hvetja alla bæjarbúa og stuðningsmenn Þróttar Nes og blakíþróttarinnar nær og fjær til að fjölmenna og hvetja Þróttarstúlkur áfram til sigurs.
Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mun ásamt frambjóðendum flokksins í NA-kjördæmi heimsækja í dag vinnustaði og efna til funda á Austurlandi. Verða þeir á kaffistofu Tandrabergs á Eskifirði í hádeginu, á kaffihúsinu Sumarlínu á Fáskrúðsfirði milli kl. 17 og 18 og á Hótel Héraði, Egilsstöðum, kl. 20 í kvöld. Allir eru velkomnir.
Auglýst hefur verið til umsóknar verkefnið ,,Networks for the Competiveness and Sustainability of European Tourism." Umsóknarfrestur er til 30. júní 2009. Í þessu verkefni er markmiðið að auka samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja innan ferðaiðnaðarins. Einnig er lögð áhersla á að styðja við samstarfsnet þessara fyrirtækja, svæðisbundið og á milli svæða, sem og að miðla þekkingu til fyrirtækja um góða viðskiptahætti sem stuðlað gætu að aukinni nýsköpun innan ferðaiðnaðarins.
Hafa skal það sem sannara reynist og vill Austurglugginn nú upplýsa þá sem þegar hafa ekki áttað sig á aprílgabbi vefsins. Þannig er frétt um að byggja eigi heilsuhótel í túnfætinum hjá Þorsteini Bergssyni á Unaósi fullkominn heilaspuni, sem og frétt um tugprósenta verðlækkun á ákveðnum vöruflokkum Nesbakka í Neskaupstað. Vonandi hafa einhverjir látið blekkjast og hlaupið apríl! Megið þið öll eiga farsælt vor framundan.
Verslunin Nesbakki í Neskaupstað hafði samband við vefinn og vildi koma því á framfæri að alrangt væri að 40% afsláttur væri af öllum vöruflokkum verslunarinnar í dag og á morgun, eins og auglýst var fyrir mistök í gær. Hins vegar væri öll dósa- og þurrvara, hverju nafni sem hún nefndist, seld á 85% afslætti, þar sem rýma ætti fyrir nýjum birgðum vegna breytinga. Leiðréttist þetta hér með.
Sænskir fjárfestar hafa sýnt áhuga á uppbyggingu heilsulindar í landi Unaóss, yst í Hjaltastaðarþinghá á Fljótsdalshéraði. Eftir því sem næst verður komist byggir hugmyndin á fögru umhverfi á svæðinu og góðu aðgengi að sjó, en hlýjar sjólaugar, heilsumeðferðir og vel búin gistiaðstaða eru á teikniborðinu. Þorsteinn Bergsson, bóndi á Unaósi, sagði aðeins um hugmynd að ræða enn sem komið er, en staðfesti að Svíarnir hefðu rætt við hann um möguleika á uppbyggingu heilsulindarinnar.
Senn líður að hefðbundinni Tíróla-hátíð í Oddsskarði um páska, en hún stendur dagana 9. til 13. apríl. Forsvarsmenn hátíðarinnar segja upplagt að verja góðum dögum í faðmi Austfirsku Alpanna ásamt fjölskyldu og vinum. Margt skemmtilegt verður að vanda á dagskrá Tíróla-hátíðar í ár og er dagskráin hér meðfylgjandi. Mikill snjór er í Oddsskarði og von á góðu færi eins og svo oft er um páskana og að sjálfsögðu verður sól og blíða á svæðinu.