Íslensku kolmunnaskipin tíu, sem verið hafa á kolmunnaveiðum á Rockall-svæðinu vestur af Skotlandi, eru á heimleið og eru djúpt suður af landinu þessa stundina. Eftir þrálát óveður, sem komu í veg fyrir veiðar, skánaði veðrið fyrir nokkrum dögum, en síðan þá hefur enginn kolmunni fundist þannig að skipin eru á heimleið.
Björgunarsveitir á Austurlandi hafa margar átt annríkt frá því í nótt. Færð er mjög breytileg innan þéttbýlis. Þannig hefur verið mjög þungfært innanbæjar á Vopnafirði og Eskifirði, en ekki sérstaklega í Neskaupstað eða á Egilsstöðum. Fjallvegir eru alls ófærir. Kona í barnsnauð lenti í hrakningum á Oddsskarði í nótt og foktjón er nokkurt, enda hefur verið gríðarlega hvasst og vindur farið upp í 48 m/sek þegar verst var. Veður er lítið farið að ganga niður.
Heilsueflingarverkefnið Heil og sæl í vinnunni, sem Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið standa að, veitti á dögunum fjórum fyrirtækjum/skólum viðurkenningu sem fyrirmyndarvinnustaðir, þ.e. Actavis, leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði, Íslandspósti og Snælandsskóla í Kópavogi.
Svanurinn Rocky hvíldi sig í gærkvöldi um 30 kílómetra vestur af Glasgow í Skotlandi fyrir fyrirhugaða flugferð til Íslands. Fylgst verður með ferðum Rocky og 49 annarra svana, sem vonir standa til að muni fljúga til Íslands í sumar, með hjálp GPS-tækja á bökum þeirra. Sagt er frá svönunum á vef BBC. Þar kemur fram að bresk fuglaverndarsamtök standi fyrir rannsókninni. Ætlunin er að læra meira um ferðir fuglanna.
Skólahald fellur víða niður á Austurlandi vegna veðurs. Upplýsingar eru um að ekki verði skóli á Vopnafirði, Seyðisfirði, Eskifirði, Fellaskóla né á Eiðum. Nú er stórhríð á Norðausturlandi og mjög hvasst á Austurlandi; 25 til 30 m/sek í fjörðum allt frá Höfn og norður úr. Ófært er víðast í fjórðungnum og ekkert ferðaveður. Lögreglan á Vopnafirði segir ófært innanbæjar og biður fólk að vera ekki á ferðinni. Væntanlega má segja hið sama um önnur þéttbýli. Spáð er norðan- og norðvestanátt, víða 15-25 m/s fram eftir degi, snjókomu og hvössu við norðaustur- og austurströndina. Minnkandi norðanátt seint í dag og dregur úr ofankomu. Norðaustan 8-15 og él norðantil seint í kvöld, en él um mest allt land á morgun. Frost 0 til 12 stig.
Enn er vont veður til fjalla á Austurlandi og ekkert ferðaveður. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar má búast við að vegir verði ófærir eftir að þjónustu líkur í kvöld. Í fjórðungnum er mikil ófærð, stórhríð og skafrenningur. Um kl. hálftíu í kvöld var þæfingsfærð á Fagradal, á Oddsskarði og með ströndinni. Veðurstofan varar við stormi við austurströndina sem gangi ekki yfir fyrr en á morgun.
Vegfarendur eru beðnir um að afla upplýsinga um færð áður en lagt er upp, því nú er færð tekin að spillast í fjórðungnum. Þar sem fært er, segir Vegagerðin vera krapa eða snjóþekju og mjög hált er með ströndinni. Spáð er norðan- og norðvestanátt, víða 15-25 m/s í nótt og fram eftir degi á morgun, hvassast við norður- og austurströndina. Talsverð snjókoma, einkum á N- og NA-landi, en þurrt að mestu sunnan heiða. Minnkandi norðanátt seint á morgun og dregur úr ofankomu. Frost 0 til 10 stig.