Allar fréttir
Lýðræðið fótum troðið í Norðausturkjördæmi
Bernharð Arnarson hefur ákveðið að draga framboð sitt á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi til baka en hann bauð sig fram í 5. – 8. sæti. ,,Ástæðan er ólíðandi framganga stjórnar Kjördæmasambands Norðausturkjördæmis sem studd er af landsstjórn flokksins. Ákvarðanir þær sem stjórnirnar hafa tekið undangengna daga eru í slíkri andstæðu við öll réttlætis- og jafnræðissjónarmið að annað eins er fáséð og alls ekki í anda eða samkvæmt gildum Framsóknarflokksins," segir Bernharð.
Sextug í Vasa-göngunni
Vasagangan í Svíþjóð hófst í gærmorgun. Gengnir eru 90 kílómetrar á skíðum milli Sälen og Mora. Meðal fjölmargra keppenda eru nokkrir Austfirðingar og þar á meðal mun vera Kolfinna Þorfinnsdóttir sem varð sextug á dögunum. Geri aðrir betur.
Eldur í Hlíðargötu í Neskaupstað
Slökkvilið Fjarðabyggðar var kallað út Kl. 16:36 í dag að efri hæð í tveggja hæða tvíbýlishúsi að Hlíðargötu í Neskaupstað. Þar hafði orðið vart við mikinn reyk í íbúð á efri hæð. Reykkafarar fóru inn í húsið til leitar og slökktu eld við eldavél og í eldhúsinnréttingu. Neðri hæð hússins var strax rýmd. Einn íbúi var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað vegna gruns um reykeitrun. Skemmdir urðu vegna elds við eldavél og í eldhúsinnréttingu. Hiti og reykur barst upp í þakrými um viftustokk auk þess sem sót barst um alla íbúðina. Að sögn Guðmundar Helga Sigfússonar slökkviliðsstjóra Fjarðabyggðar gekk hratt og vel að ráða niðurlögum eldsins og reykræsta íbúðina.
Segir ekki um uppsagnir að ræða
Vegna fréttar um að starfsmönnum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í áhaldahúsum á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Stöðvarfirði og skrifstofufólki á Norðfirði og Reyðarfirði hefði verið sagt upp fyrir helgina, hafði Helga Jónsdóttir bæjarstýra samband við vefinn. Segir hún að ekki hafi verið um uppsagnir að ræða heldur hafi föstum umframkjörum allra starfsmanna sveitarfélagsins verið sagt upp. Verði viðbótarkjör tekin til endurskoðunar með það að markmiði að lækka launakostnað um 10% og jafna kjör milli fólks. Helga segir markmiðið að ljúka endurskoðun allra fastasamninga í mars. Hún segir að áður en þessar aðgerðir voru kynntar starfsfólki hafi hún átt fundi með forsvarsmönnum stéttarfélaganna ; AFLs, FOSA og Starfsmannafélags Fjarðabyggðar. ,,Ég varð ekki vör við annað en fullur skilningur væri á stöðunni og mönnum þætti sú leið sem fara á málefnaleg og gæta meðalhófs,“ segir Helga.
Sigurlaug býður sig fram í 5. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir býður sig fram í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í prófkjöri flokksins sem fram fer þann 14. mars. Hún er búfræðingur að mennt og býr í Reykárhverfi í Eyjafjarðarsveit.
Höttur getur enn sloppið
Höttur á enn möguleika á að bjarga sér frá falli úr 1. deild karla í körfuknattleik eftir að liðið vann Laugdæli á Egilsstöðum um helgina. Þróttarstúlkum tókst ekki að koma í veg fyrir að HK yrði deildarmeistarar í blaki þótt þær ynnu fyrri leik liðanna á Norðfirði.